Erlent

Hand­tekinn í Tyrk­landi vegna morðsins á for­seta Haítí

Kjartan Kjartansson skrifar
Veggmynd af Jovenel Moise í Port-au-Prince á Haítí. Vopnaðir menn réðu hann af dögum í sumar.
Veggmynd af Jovenel Moise í Port-au-Prince á Haítí. Vopnaðir menn réðu hann af dögum í sumar. Vísir/EPA

Lögreglan í Tyrklandi handtók karlmann í tengslum við rannsókn á morðinu á Jovenel Moise, forseta Haítí, í gær. Enginn hefur verið ákærður eða sakfelldur vegna morðsins.

Moise var skotinn til bana á heimili sínu í júlí. Eiginkona hans særðist í tilræðinu. Hópur kólumbískra málaliða er grunaður um að hafa framið ódæðið.

Claude Joseph, utanríkisráðherra Haítí, segir að tyrknesk yfirvöld hafi handtekið mann að nafni Samir Handal og að hann geti haft mikla þýðingu fyrir rannsóknina á morðinu, að því er segir í frétt Reuters-fréttastofunnar.

Alþjóðalögreglan Interpol lýsti eftir Handal og segja tyrkneskir fjölmiðlar að hann hafi verið tekinn fastur á flugvellinum í Istanbúl þegar hann millilenti á leið sinni frá Bandaríkjunum til Jórdaníu.

AP-fréttastofan segir að Handal sé athafnamaður frá Haítí og að hann hafi stöðu grunaðs í rannsókninni á morðinu á Moise. Stjórnvöld á Haítí hafa þó ekki gefið frekari upplýsingar um hvernig Handal eigi að hafa verið viðriðinn ráðabruggið.

Fleiri en fjörutíu manns hafa verið handteknir í tengslum við rannsóknina, þar á meðal átján kólumbískir uppgjafarhermenn og nokkrir haítískir lögreglumenn, en enginn hefur verið sóttur til saka.


Tengdar fréttir

Mánuði eftir morðið ræður óvissan ríkjum

Mánuði eftir að Jovenel Moise, forseti Haítí, var myrtur á heimili sínu hefur enginn af þeim sem handteknir hafa verið vegna árásarinnar verið færður fyrir dómara. Dómarar og aðrir sem komið hafa að rannsókninni segjast hafa orðið fyrir þrýstingi um að breyta skýrslum og eru í felum vegna morðhótana.

Hinir grunuðu tengdir við fundi um framtíð Haítí

Ráðamenn á Haítí segja hina grunuðu í morði Jovenel Moise, forseta, hafa hist í aðdraganda morðsins og rætt næstu skref eftir dauða forsetans. Hinir grunuðu segjast hafa verið að tala um næstu skref ef Moise stigi úr embætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×