Fótbolti

Í hjólastól á úrslitaleiknum gegn Noregi í kvöld

Sindri Sverrisson skrifar
Louis van Gaal var í golfbíl á æfingu hollenska landsliðsins í gær.
Louis van Gaal var í golfbíl á æfingu hollenska landsliðsins í gær. Getty/Eric Verhoeven

Louis van Gaal verður í hjólastól í kvöld þegar Holland og Noregur mætast í hálfgerðum úrslitaleik um að komast á HM karla í fótbolta í Katar.

Mikil spenna er í Noregi, Tyrklandi og Hollandi en í kvöld ræðst hver þessara þjóða kemst beint á HM í Katar, hver fer í umspil og hver situr eftir með sárt ennið.

Holland og Noregur mætast í Rotterdam klukkan 19:45, í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2. Á sama tíma leikur Tyrkland gegn Svartfjallalandi á útivelli.

Holland er efst í riðlinum með 20 stig og langbestu markatöluna en Tyrkland og Noregur eru með 18 stig hvort. Tyrkland er með einu marki betri markatölu en Noregur, og hefur skorað fleiri mörk í undankeppninni.

Hollandi dugar því jafntefli til að ná efsta sætinu og komast beint á HM. Ef Noregur vinnur er liðið öruggt um að komast að minnsta kosti í umspil.

Til að Noregur vinni riðilinn þarf liðið að vinna Holland og treysta á að Tyrkland vinni ekki Svartfjallaland, eða þá að vinna Holland með tveimur mörkum meiri mun en Tyrkland vinnur Svartfjallaland.

Ef að Noregur og Tyrkland vinna bæði í kvöld situr Holland eftir í 3. sæti.

Meiddist þegar hann steig af reiðhjóli

Louis van Gaal, þjálfari hollenska landsliðsins, meiddist illa í mjöðm fyrr í þessari viku þegar hann féll við þegar hann var að stíga niður af hjóli sínu. Hann stýrði æfingu í gær í golfbíl, ræddi við fjölmiðla í gegnum tölvu á fjölmiðlafundi í gær, og er í hjólastól.

Klippa: Van Gaal stýrði æfingu í golfbíl

Hann verður ekki á hliðarlínunni í kvöld vegna meiðslanna en mun fylgjast með leiknum úr VIP-hólfi á Feyenoord-leikvanginum.

Van Gaal verður í símasambandi við aðstoðarmenn sína og mun fara í hjólastólnum til búningsklefa til að ræða við leikmenn fyrir leik, í hálfleik og eftir leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×