Greint var frá því í byrjun vikunnar að Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hyggist reyna að ná til óbólusettra með bólusetningarbíl, sem til dæmis á að aka á framkvæmdasvæði til að freista þess að hitta á erlenda verkamenn.
Í ágúst voru tólf prósent sextán ára og eldri óbólusett á Íslandi. Meirihluti, eða 60,4 prósent, var með erlent ríkisfang. Þegar litið er á íbúa með erlent ríkisfang í heild voru 48 prósent þeirra óbólusett í ágúst.
Fylgjast frekar með pólskum fréttum en íslenskum
Langstærsti hópur innflytjenda á Íslandi eru Pólverjar. Agnieszka Sokolowska, þjónustufulltrúi hjá Reykjavíkurborg, fædd í Póllandi en búsett hér á landi í fjórtán ár, kveðst hafa tekið eftir ótta við bólusetningar meðal samlanda sinna, þó að hún geti að sjálfsögðu ekki talað fyrir hönd allra. Hreyfing bólusetningarandstæðinga sé mjög sterk í Póllandi.
„Og þetta hefur áhrif. Pólverjar hér á Íslandi eru oft að fylgjast með fréttunum frá heimalandi sínu, ekki sérstaklega íslenskum fréttum. Og það er bara áhyggjur um óöryggi bóluefnisins eða aukaverkanir.“
Hún segir upplifun sumra í fyrstu bylgju hafa verið á þá leið að Íslendingar ættu frekar tilkall til bóluefnis.
„Eða að einhverjum upplýsingum sé haldið frá útlendingum.“
Hún telur málið ekki snúast um aðgengi. Þá telur hún ólíklegt að hægt verði að sannfæra þá sem eftir eru úr þessu.
„Nema ef vinnurekendur eru að krefjast þess að starfsmenn séu bólusettir.“