Innlent

Hóp­smit á sunnan­verðum Vest­fjörðum

Atli Ísleifsson skrifar
Frá Patreksfirði. Patreksskóli verður til að mynda lokaður út vikuna vegna smita meðal starfsmanna og nemenda. Myndin er úr safni.
Frá Patreksfirði. Patreksskóli verður til að mynda lokaður út vikuna vegna smita meðal starfsmanna og nemenda. Myndin er úr safni. Vísir/Vilhelm

Þrettán eru smitaðir af Covid-19 á sunnanverðum Vestfjörðum, flestir á Patreksfirði.

Frá þessu var greint á Facebook síðu Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða síðdegis í gær en þar segir að talsvert stór hópur hafi farið í sýnatöku í fyrradag og að ekki væru komnar niðurstöður úr öllum sýnum. Unnið sé að smitrakningu.

Ennfremur segir að smitin eru mjög víða í samfélaginu, margir komnir í sóttkví og fleiri geti bæst við. Vegna þessa hefur vettvangsstjórn almannavarna verið virkjuð á svæðinu. Viðbúið er að röskun verði á margvíslegri starfsemi í dag og næstu daga.

Patreksskóli verður til að mynda lokaður út vikuna vegna smita meðal starfsmanna og nemenda. Opið verður í sýnatöku í dag og eru allir íbúar með einkenni (þó þau séu lítil) eða tengsl við smitaða einstaklinga velkomnir. Sýnatakan verður í félagsheimilinu á Patreksfirði, gengið inn við norðvestur-enda hússins. Búið er að opna fyrir bókanir á Heilsuveru.

Vegna ástandsins hefur bólusetningu sem fram átti að fara í dag verið frestað um óákveðinn tíma og verður fólk boðað aftur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×