Stundin greinir fyrst frá málinu en þar segir að landskjörstjórn hafi þegar sent fyrirspurn til dómsmálaráðuneytisins. Í niðurstöðu ráðuneytisins segir að formaður yfirkjörstjórnar í kjördæminu fullyrði að einungis seðlar frá ráðuneytinu hafi verið notaðir í kjördæminu.
Geir telur niðurstöðu ráðuneytisins ekki nægja til að útiloka möguleg kosningasvik og því nauðsynlegt að kæra kosningarnar, til að kanna málið til hlítar. Baldvin Björgvinsson, umboðsmaður Sósíalistaflokksins, segist hafa tekið eftir misræminu þegar farið var yfir vafaatkvæði í lok talningar.
„Við fengum ekki að koma nálægt neinu eftirliti á talningarstað. Okkur er vísað úr talningunni og upp í stúku af yfirkjörstjórn og við vorum þarna eins og hverjir aðrir almennir borgarar,“ segir Baldvin í samtali við Stundina.
Fleiri kærur liggja fyrir
Fleiri kærur liggja fyrir en Jón Þór Ólafsson fyrrverandi þingmaður Pírata hefur kært Ingva Tryggvason, formann yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi, til lögreglustjórans á Vesturlandi vegna brota við framkvæmd kosninga.
Þá hefur Þorvaldur Gylfason hagfræðingur einnig lagt fram kæru. Guðmundur Gunnarsson, oddviti Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi, hefur enn fremur sagst ætla með málið til Mannréttindadómstóls Evrópu, telji hann þörf á því.