Staðfest var í desember 2019 að það læki úr bensíngeyminum og var hann grafinn upp og fjarlægður næsta sumar. Á botni geymisins fannst gat og reyndist mikil olíumengun í jarðvegi. Þrjú nálæg íbúðarhús voru metin óíbúðarhæf, auk afgreiðslustöðvarinnar, vegna mengunarinnar og var ráðist í umfangsmiklar jarðvegsrannsóknir til að meta umfangið.
Fyrirmæli Umhverfisstofnunar byggja á tillögum sem settar voru fram úrbótaáætlun sem verkfræðistofan Verkís hf. vann fyrir hönd N1.
Þar segir að markmið hreinsunarinnar sé að þau hús sem hafi orðið fyrir áhrifum mengunarinnar (Suðurbraut 6, 8, 9 og 10) verði sem fyrst íbúðarhæf og að styrkur mengunarinnar í þeim valdi ekki heilsuspillandi áhrifum.
N1 er meðal annars gert að hefja gröft á skurðum í kringum Suðurbraut 6, 8 og 10 og sömuleiðis á milli þeirra ef hægt er. Þá segir að það skuli setja niður loftunarrör í samræmi við tillögur í úrbótaáætlun, að því gefnu að framkvæmdaleyfi sveitarfélagsins Skagafjarðar liggi fyrir framkvæmdinni. Skulu framkvæmdir hefjast innan tveggja vikna frá útgáfu fyrirmælanna síðasta mánudag.
Auk þess skuli setja kolasíur á öll loftunarrör og blásara, auk þess að skila reglulegum áfangaskýrslum til Umhverfisstofnunar um framvindu hreinsunarstarfsins.