Það hefur eflaust ekki farið fram hjá mörgum að einn stærsti verslunardagur ársins er við það að ganga í garð. Auglýsingar hafa tekið að óma í útvarpi og síður dagblaðanna eru sömuleiðis fullar af auglýsingum frá hinum ýmsum fyrirtækjum um misháa afslætti.
Bandaríkjamenn fagna Þakkagjörðahátíðinni í dag og er um að ræða frídag þar í landi. Daginn eftir streyma Bandaríkjamenn í verslanir, oft á miðnætti, og kaupa vörur á töluverðum afslætti. Íslendingar hafa tekið upp þann sið.
Svartur föstudagur, svört vika og svartir dagar eru meðal þess sem fólk heyrir nú í sífellu en mörg fyrirtæki hafa tekið upp á því að bjóða upp á afslætti allt að viku fyrr, sem og yfir helgina til að tengja við Stafrænan mánudag, eða Cyber Monday, sem fer alltaf fram mánudaginn eftir Svartan föstudag.
Svartur föstudagur er tiltölulega nýtt fyrirbæri hér á landi en dagurinn nýtur sífellt meiri vinsælda með hverju ári sem líður. Með árunum hefur aukinn áhersla verið lögð á að finna séríslenskt heiti fyrir daginn og kom Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra með áskorun á degi íslenskra tungu fyrr í mánuðinum.
„Ég skora bæði á verslanir og auglýsingastofur að næsti dagur sem er helgaður einhvers konar afsláttum verði kallaður Svartur fössari,“ sagði Katrín aðspurð um íslenskt heiti í kjölfar Dags einhleypra, eða Singles day eins og hann kallast úti í heim.
Af auglýsingum að dæma virðast flestar verslanir hafa svarað þessari áskorun forsætisráðherra og tekið upp heitið Svartur fössari. Önnur fyrirtæki hafa sömuleiðis búið til sín eigin heiti, eins og Heimkaup sem notar heitið Myrkir markaðsdagar yfir helgina.
Nokkur fyrirtæki, til að mynda Vegan búðin, hafa aftur á móti ákveðið að bjóða ekki upp á afslætti í tilefni dagsins og hvetja þess í stað til ábyrgrar neyslu. Sömu sögu má segja um ýmsar aðrar verslanir sem leggja upp úr sjálfbærni og umhverfisvænni framleiðslu.
Þá hefur útivistafyrirtækið 66°Norður farið þá leið að láta 25 prósent af allri sölu í vefverslun á Svörtum fössara renna til Jöklarannsóknafélagsins í stað þess að bjóða upp á afslætti. Markmiðið með samstarfinu er að standa vörð um íslensku jöklana og stuðla að aukinni vitundarvakningu um breytingarnar sem eru að eiga sér stað á þeim vegna hlýnunar í andrúmsloftinu.
Þannig hafa umhverfissjónarmið fengið nokkuð aukið vægi undanfarið en ekkert farasnið virðist þó vera á Svörtum fössara um þessar mundir, þar sem dagurinn hefur fest sig rækilega í sessi.