Skoðun

Verk­falls­vopnið slævt

Guðjón Ragnar Jónasson skrifar

Um helgina tók til starfa ný ríkisstjórn, annað ráðuneyti Katrínar Jakobsdóttur, sem vonandi markar upphaf góðra tíma í landsmálum jafnt sem menntamálum. Sjálfur las ég gaumgæfilega stjórnarsáttmála nýju stjórnarinnar og hnaut þar um eitt atriði: Ákvæðið um að efla embætti ríkissáttasemjara. Það er sennilega hið ágætasta mál en í Morgunblaðinu í morgun fagnaði Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, þessu ákvæði sérstaklega.

Í mínum huga er mikilvægt að eiga sterkan ríkissáttasemjara. En nú virðist sem uppi séu hugmyndir um að færa sáttasemjara aukið vald til að fresta verkföllum. Við skulum hafa það hugfast að verkfallsrétturinn er öllu launafólki mikilvægur og hann má ekki með nokkru móti skerða.

Ég þekki það sjálfur hve verkfallsvopnið er gríðarlega mikilvægt. Grunnstefið í baráttu launafólks er að standa vörð um verkfallsréttinn og félagafrelsið, og ef vegið er að þessum grunnstoðum getur slíkt haft alvarlegar afeiðingar fyrir allt launafólk. Ég bið því verkalýðshreyfinguna að vera á varðbergi í þessum efnum. Verkföll eru neyðarréttur sem launafólk nýtir ekki nema brýna nauðsyn beri til. Skipulag verkfalls er langt og flókið ferli, og til þess vopns grípur enginn að óþörfu. Rétt launafólks í þessum efnum verður því að gulltryggja og undan honum má ekki grafa.

Látum ekki hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar villa okkur sýn. Hugboð segir mér að verkföll séu ekki veruleiki gærdagsins; til þeirra verður örugglega boðað í framtíðinni og þá skiptir afdráttarlaus samstaða launafólks lykilmáli. Verkfallsrétturinn er eitt mikilvægasta vopn launamanna. Það má hvorki slæva né gera bitlaust.

Höfundur er kennari og í framboði til varaformanns Kennarasambands Íslands.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×