Þó að heil 89 milljón ljósár skilji svartholin tvö og sólkerfið okkar að er parið engu að síður það langnálægasta sem hefur fundist. Fyrri methafi er í um 470 milljón ljósára fjarlægð.
Þau reyndust einnig nær hvort öðru en önnur risasvarholapör sem menn hafa fundið en „aðeins“ 1.600 ljósár eru á milli þeirra. Stærra svartholið er um 154 milljón sinnum efnismeira en sólin okkar og en hitt 6,3 milljón sinnum massameira. Stjörnufræðingarnir mældu stærð þeirra með því að kanna þyngdaráhrif á nærliggjandi stjörnur.
Talið er að risasvarhol sé að finna í miðju allra stórra vetrarbrauta. Parið sem vísindamennirnir fundu er í miðju NGC 7727 vetrarbrautarinnar sem er afsprengi samruna tveggja þyrilvetrarbrauta í stjörnumerkinu vatnsberanum. Þegar vetrarbrautir sameinast á þann hátt stefna risasvarthol þeirra hvort á annað, að því er segir í tilkynningu frá Evrópsku stjörnustöðinni á suðurhveli (ESO).
„Vegalengdin milli svarholanna og innbyrðis hraði bendir til þess að þau muni á endanum sameinast í eitt enn stærra svarthol, líklega innan næstu 250 milljón ára,“ segir Holger Baumgardt, prófessor við Queensland-háskóla í Ástralíu og meðhöfundur greinar um uppgötvunina.
Rannsókn stjörnufræðinganna er sögð benda til þess að mun fleiri risasvarthol sé að finnast í samrunavetrarbrautum í alheiminum. Þau gætu verið allt að þriðjungi fleiri í nágrannavetrarbrautum okkar en hingað til hefur verið talið.
Uppfært 30.11.2021 Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar var stærð svartholanna lítillega vanmetin. Þau eru 154 milljón og 6,3 milljón sinnum massameiri en sólin en ekki 154 og 6,3 sinnum massameiri eins og stóð upphaflega.