Þar kemur fram að möguleg áform séu uppi um að kaupa húsnæði Hótel Sögu sem gæti hentað til að koma starfsemi Menntavísindasviðs Háskóla Íslands fyrir á háskólasvæðinu.
Menntavísindasviðið er nú staðsett í Stakkahlíð og Skipholti. Í frumvarpinu segir að forsenda þess að ganga til kaupa á Hótel Sögu sé að eignin bjóðist á hagstæðum kjörum.
Alls er óskað eftir því að fimm milljarðar fari í kaup á fasteignum á næsta ári. Stærstur hluti þeirra fjármuna er eyrnamerktur mögulegum kaupum á Hótel Sögu.
Rekstrarfélag Hótel Sögu var tekið til gjaldþrotaskipta fyrr á árinu en hótelinu var lokað á síðasta ári vegna kórónuveirufaraldursins.
Viðræður um sölu á fasteigninni hafa ekki gengið eftir en meðal ananrs var greint frá því vor að formlegar viðræður hafi hafist við fjármálaráðuneytið um kaup á hótelinu fyrir Háskóla Íslands.