Skoðun

„Skynsegin“ jól

Mamiko D. Ragnarsdóttir skrifar

Þegar ég var yngri var alltaf haldið jólaboð heima hjá ömmu og afa. Allir afkomendur þeirra og makar mættu í boðið sem var töluverður fjöldi. Þá skapaðist mikill kliður. Fólk að spjalla hér og þar í flestum rýmum heimilisins og stundum óvænt hlátrasköll. Það var kannski kveikt á sjónvarpinu eða útvarpinu. Ég heyrði hávaða úr eldhúsinu, en borðbúnaðurinn var vaskaður upp jafnóðum og búið var að nota hann. Hljóðáreitin fóru í einn hrærigraut. Ég átti erfitt með að taka þátt því ég skildi ekki hvað fólk var að segja. Mér leið illa. Ég kláraði að borða og fór með diskinn minn inn í eldhús. Hvað nú? Ég kíkti inn í hvert einasta herbergi til að athuga stöðuna, en það voru bara of mikil læti. Hávaðinn heyrðist úr öllum herbergjum heimilisins.

Ég flúði fram á stigagang. Á stiganginum heyrðist aðeins daufur kliður frá veislunni. Þar bjó vinkona mín Móna Lísa. Hún var köttur. Þegar ég settist í tröppurnar kom hún, lagðist í fangið á mér og byrjaði að purra. Þá leið mér vel. Ég gat verið svona í kannski heila klukkustund án þess að finna tímann líða á meðan mesti kliðurinn var.

Eftir dágóðan tíma fann amma mig á stigaganginum og sagði: „Ertu þarna elskan mín að tala við köttinn?“ Ég hafði ekki verið neitt að tala við Mónu Lísu, en lét eins og ég skildi hvað hún meinti. Amma var sátt við mig og reyndi ekki að draga mig inn til að taka þátt í gleðskapnum. Þarna vissi ég ekki að ég væri „skynsegin“ (e. neurodivergent) en samt mætti ég þessum fallega skilningi ömmu minnar. Reynum að vera eins og elsku amma mín heitin. Ef einhver vill fara afsíðis og tekur ekki þátt í veislu þá á það ekki að vera neitt tiltökumál. Fögnum fjölbreytileika mannrófsins án þess að reyna að steypa alla í sama mótið.

Má vera „hinsegin“? En hvað með „skynsegin“?

Höfundur er skynsegin einhverf tónlistarkona.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×