Fylkir vann óvæntan sigur á Þór í framlengingu

Snorri Rafn Hallsson skrifar
Fylkir - Þór - 07122021

Fyrir leikinn urðu sigurlíkur Fylkis að teljast afar smáar enda eina liðið sem Fylkir hefur getað séð við, Kórdrengir sem sátu stigalausir á botni töflunnar. Þórsarar áttu stórglæsilega byrjun á tímabilinu en eftir tap gegn Dusty hefur farið að halla undan fæti hjá Þórsurunum og tapaði liðið til að mynda Vallea í lok síðustu umferðar.

Leið liðanna lá í Vertigo kortið en þar mættust liðin einnig þegar Þór hafði betur 16-10 í annarri umferð. Þórsarar unnu hnífalotuna og kusu að byrja í vörn (Counter-Terrorists). Fylkismenn gerðu sér lítið fyrir og komust strax í 3-0 þar sem Zerq fór beittur fyrir sterku liði Fylkis en hann hefur leikið undanfarið í staðinn fyrir Vikka á vappanum og verið öflugur og fyrirferðarmikill á prikinu. Fylkismenn reyndu þá að hraða sókninni en Þórsarar sáu við því um leið og þeir fengu almennilegar byssur og komust yfir. Í síðari hluta hálfleiks var vörn Þórsara þétt og leikmenn liðsins óhræddir við að sækja sér upplýsingar og haga leiknum eftir því á meðan öll ábyrgðin var á herðum Zerq og Pat Fylkismegin. Það reyndist þungur vagn að draga og sigldi Þór fram úr fylki til að tryggja sér gott forskot eftir fyrri hálfleik.

Staða í hálfleik: Fylkir 5 - 10 Þór

Liðsmenn Fylkis voru þó hvergi af baki dottnir. Fyrsta lota síðari hálfleiks féll þeim í vil eftir að Jolli náði góðri opnun og setti saman skemmtilega fléttu með reyksprengju og kitti til að aftengja sprengju Þórsara. Upphófst þar með runa af lotum þar sem hvorki gekk né rak hjá Þórsurum. Þeim gekk illa að vopnast almennilega og á meðan Pat og Zerq héldu uppteknum hætti létu hinir leikmenn Fylkis einnig finna fyrir sér. Fylkir stillti upp aftarlegri vörn en mætti aðgerðum Þórs af krafti og fékk Zerq að leika sér mikið á miðjunni og valda usla. StebbiC0C0 var í vandræðum með að fella leikmenn í upphafi lota og virtist sem engin annar í liði Þórs væri tilbúinn til að stíga inn í það hlutverk í hans stað. Fylkir komst þannig yfir í 13-10 áður en það lifnaði yfir leikmönnum Þórs á ný sem loks tókst að krækja sér í nokkrar lotur með hröðum og hörðum sóknum og knýja fram jafntefli í venjulegum leiktíma.

Staða eftir venjulegan leiktíma: Fylkir 15 - 15 Þór

Framlengingin var ekki löng og unnu Fylkismenn fjórar lotur í röð til að tryggja sér sigurinn. Það var ánægjulegt að sjá að þetta lið sem alltaf hefur vantað eitthvað upp á tókst að stoppa í þau göt sem þurfti og leika gríðarlega góðan leik.

Lokastaða: Fylkir 19 - 15 Þór

Þór situr enn í öðru sæti deildarinnar en bilið á milli þeirra og Dusty heldur bara áfram að vaxa. Næsta þriðjudag tekur liðið á móti Ármanni í tíundu umferð deildarinnar. Á föstudaginn eftir viku mætir Fylkir svo XY og verður spennandi að sjá hvort liðið heldur uppteknum hætti í þeim leik. Sýnt verður frá leikjunum á Stöð 2 Esport og á Twitch síðu Rafíþróttasamtaka Íslands.

Bein lýsing

Leikirnir