Sport

Lýsti á­standinu á Ingebrigtsen-heimilinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tone og Gjert Ingebrigtsen eiga sjö börn. Hann er sakaður um að hafa beitt tvö þeirra, Jakob og Ingrid, ofbeldi. Tone hefur staðið þétt við bakið á sínum manni.
Tone og Gjert Ingebrigtsen eiga sjö börn. Hann er sakaður um að hafa beitt tvö þeirra, Jakob og Ingrid, ofbeldi. Tone hefur staðið þétt við bakið á sínum manni.

Eiginkona Jakobs Ingebrigtsen, Elisabeth, lýsti ástandinu á Ingebrigtsen-heimilinu fyrir rétti í gær. Hún sagði að fjölskyldufaðirinn, Gjert, hafi reiðst þegar þau Jakob vildu flytja inn saman.

Réttarhöldin yfir Gjert héldu áfram í Sandnes í gær en þá steig Elisabeth í vitnastúkuna. Gjert er sakaður um að hafa beitt Jakob og systur hans, Ingrid, andlegu og líkamlegu ofbeldi.

Elisabeth kynntist Jakob þau hún var sextán ára. Hún sagði að Ingebrigtsen-fjölskyldan hafi tekið vel á móti henni í byrjun en síðan hafi hún séð að ekki var allt með felldu.

Gjert var til að mynda afar ósáttur við þegar Elisabeth og Jakob vildu byrja að búa saman. 

„Þegar það var tekið alvarlega vorum við skömmuð og kölluð hryðjuverkamenn. Fyrir þeim og fjölskyldunni voru þetta mikil svik,“ sagði Elisabeth en Jakob hefur einnig lýst svipuðum viðbrögðum föður síns við áætlunum þeirra Elisabethar að flytja inn saman. Þau byrjuðu að búa í kjallara á Ingebrigtsen-heimilinu en fluttu svo í íbúð skammt frá.

Grét í klukkutíma um jólin

Elisabeth segist hafa haft áhyggjur af Jakob, meðal annars um jólin 2021.

„Ég var mjög áhyggjufull að hann væri þunglyndur. Ég man eftir kvöldinu fyrir aðfangadag, eða aðfangadag sjálfan, þegar hann grét í klukkustund og sagðist líða eins og hann væri hlutur. Ég þurfti bókstaflega að draga hann út til að vera með fjölskyldunni,“ sagði Elisabeth.

Jakob er afar sigursæll hlaupari.epa/Lise Aserud

Í janúar 2022 ráku Jakob og bræður hans Gjert sem þjálfara þeirra og slitu á öll samskipti við hann eftir að hann sló Ingrid í andlitið með handklæði.

Þarf að eiga síðasta orðið

Elisabeth lýsti tengdaföður sínum sem skapheitum og óútreiknanlegum.

„Ég upplifi hann sem frekar skapheitan. Það er mikill óútreiknanleiki. Mér finnst erfitt að lýsa þessu, hann sveiflast mikið fram og til baka í hegðun. Þú veist aldrei við hverju þú mátt búast á hverjum degi. Mér hefur alltaf fundist sem hann þurfi að eiga síðasta orðið og hafa rétt fyrir sér,“ sagði Elisabeth og bætti við að Gjert hafi stundum blótað börnum sínum daglega.

Réttarhöldin yfir Gjert standa yfir til 16. maí. Hann gæti átt yfir höfði sér sex ára fangelsi, verði hann fundinn sekur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×