Í lok síðasta mánaðar keypti sjóðurinn samtals 7,7 milljónir hluta að nafnverði – markaðsvirði þess hlutar er í dag rúmlega 1.400 milljónir króna – og á nú samtals 10,5 milljónir hluta, sem jafngildir um 0,7 prósenta hlut í bankanum. Eini erlendi fjárfestirinn sem er með stærri eignarhlut í hluthafahópi Arion um þessar mundir er þýska fjármálafyrirtækið MainFirst Bank með 1,2 prósenta hlut.
Þetta má lesa út úr nýjum lista yfir alla hluthafa Arion banka, sem Innherji hefur séð, en þjóðarsjóður Kúveit kom fyrst inn í hluthafahóp bankans í maí á þessu ári þegar hann fjárfesti fyrir jafnvirði um 300 milljónir á þeim tíma.
Þjóðarsjóði Kúveit (e. Kuwait Investment Authority) var komið á fót árið 1953 og er hann sá elsti sinnar tegundar sem er starfræktur í heiminum. Eignir sjóðsins nema samtals á sjötta hundrað milljarða Bandaríkjadala, sem jafngildir meira en tuttugufaldri landsframleiðslu Íslands.
Erlendir vísitölusjóðir, sem fjárfesta einkum í hlutabréfum félaga á vaxtamörkuðum (e. frontier markets), hafa á undanförnum vikum verið að auka nokkuð hlut sinn í Arion banka. Ísland var formlega tekið inn í vaxtamarkaðsvísitölu MSCI undir lok maí á þessu ári og í kjölfarið fór að bera á talsverðu innflæði á hlutabréfamarkaðinn, einkum í bréf Arion og Marel.
Í byrjun þessa mánaðar fengu íslensku kauphallarfélögin enn meiri vigt í vísitölunni en áður og ný félög – Íslandsbanki og Síldarvinnslan – bættust sömuleiðis við. Þannig er Arion orðið tuttugasta stærsta félagið í vísitölunni með 1,5 prósenta vigt.
Aðrir erlendir vísitölusjóðir sem hafa verið að bæta við sig í Arion að undanförnu eru sjóðir í stýringu breska eignastýringarrisans Schroders og Legal & General. Þannig tvöfaldaði Schroders stöðuna sína í bankanum undir lok nóvember og heldur núna á samtals 3,9 milljónum hluta að nafnvirði, eða sem nemur rúmlega 700 milljónum króna að markaðsvirði.
Arion banki hagnaðist um 8,2 milljarða á þriðja ársfjórðungi þessa árs og var arðsemi eiginfjár 17,0 prósent samanborið við 8,3 prósent á sama tímabili í fyrra.
Stærstu hluthafar bankans eru LSR, Lífeyrissjóður verslunarmanna, Gildi og fjárfestingafélagið Stoðir.
Hlutabréfaverð Arion, sem stóð í 184,5 krónum á hlut við lokun markaða í dag, hefur hækkað um 94 prósent frá áramótum og nemur markaðsvirði bankans um 306 milljörðum.
Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.