Þetta er niðurstaða kviðdóms en réttarhöld í máli hins 39 ára Smollett hafa staðið í Chicago í Bandaríkjunum síðustu daga. Smollett neitaði því sem fram kom í ákæru um að hann hafi sviðsett árásina gegn sér.
Saksóknarar fullyrtu að Smollett hafi „logið í marga klukkutíma“ í vitnastúku þar sem hann hafi endurtekið það sem hann sagði lögreglunni í Chicago eftir árásina.
Kviðdómur fann hann sekan í fimm ákæruliðum, en hver ákæruliður getur varðað allt að þriggja ára fangelsi. Þar sem Smollett er með hreina sakaskrá telja sérfræðingar að Smollett megi eiga von á stuttum fangelsisdómi eða jafnvel skilorðsbundnum dómi, að því er segir í frétt BBC.
Enn er ekki komin dagsetning hvenær dómari mun greina frá refsingu Smolletts.
Smollett, sem er bæði svartur og samkynhneigður og sem gerði garðinn frægan fyrir hlutverk sitt í þáttunum Empire, tilkynnti lögreglu um árásina í janúar 2019. Sagði hann tvo árásarmenn hafa hrópað að honum ýmsum ókvæðisorðum og slagorð stuðningsmanna Donalds Trump, þáverandi Bandaríkjaforseta. Þá sagði hann mennina hafa kastað kemísku efni á hann og komið snöru fyrir utan um hálsinn á honum þar sem hann var á gangi heim síðla nætur í Chicago.
Lögregla hóf svo rannsókn á málinu í febrúar sama ár vegna gruns um að Smollett hafi sviðsett árásina í þeim tilgangi að vekja athygli á sjálfum sér. Átti hann að hafa greitt bræðrunum Abimbola og Olabinjo Osundairo alls 3.500 dali, um hálfa milljón króna, fyrir það að ráðast á sig.
Abimbola hafði þá starfað sem aukaleikari í þáttunum Empire.