Leikur Tottenham og Rennes í lokaumferð riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu átti að fara fram líkt og aðrir leikir keppninnar á fimmtudaginn var. Vegna fjölda smita í herbúðum Tottenham þurfti að fresta leiknum en nú er ljóst að honum hefur verið aflýst.
„Þrátt fyrir að allir möguleikar hafi verið skoðaðir er ljóst að ekki finnst tími til að spila leik Tottenham og Rennes vegna anna beggja liða á næstunni,“ segir í tilkynningu knattspyrnusambands Evrópu um málið.
Þar kemur einnig í ljós að ekki hafi verið ákveðið hvernig niðurstaða muni fást í viðureign liðanna.
Covid-hit #THFC v Rennes game will not be played. "Unfortunately, despite all efforts, a solution that could work for both clubs could not be found," Uefa says. Result to be decided by Uefa Control, Ethics and Disciplinary Body.
— Henry Winter (@henrywinter) December 11, 2021
Eftir 3-1 sigur Vitesse á Mura í lokaumferð G-riðils er Rennes á toppi riðilsins og ljóst að liðið er komið áfram í útsláttarkeppni Sambandsdeildarinnar. Tottenham er hins vegar í 3. sæti með sjö stig, þremur stigum minna en Vitesse.
Það er þar af leiðandi ljóst að nema UEFA dæmi Tottenham á einhvern hátt sigur í leik liðanna – sem verður að teljast einkar ólíklegt – þá er þátttöku Tottenham í Evrópu á þessari leiktíð lokið.