Innlent

Ungir drengir í á­falli eftir árás á Álfta­nesi

Smári Jökull Jónsson skrifar
Móður annars drengjanna finnst ótrúlegt að svona árás gerist á Álftanesi.
Móður annars drengjanna finnst ótrúlegt að svona árás gerist á Álftanesi. Vísir/Vilhelm

Ráðist var á tvo 16 ára drengi á Álftanesi í gærkvöldi. Móðir annars drengsins segir þá í hrikalegu áfalli.

Að sögn móður annars drengjanna átti árásin sér stað um kvöldmatarleytið í gærkvöldi þegar drengirnir tveir voru á gangi frá sundlauginni og að heimili annars þeirra. Skyndilega verða þeir varir við þrjá aðila fyrir aftan sig.

Nánast um leið og einn mannanna spyr hvað úlpa annars drengjanna kostar er drengurinn sleginn í höfuðið og honum skipað að fara úr úlpunni og tæma vasana. Árásarmennirnir rifu úlpuna af honum og hlupu síðan á brott.

Sólrún Gunnarsdóttir, móðir annars drengjanna, finnst ótrúlegt að svona lagað gerist á Álftanesi. Hún segir að þeir séu í andlegu áfalli eftir árásina.

„Sonur minn svaf ekki vel í nótt,“ segir hún og bætir við að gatan sem þau búa við, þar sem árásin átti sér stað, sé algjör svefngata. 

Sólrún segir að strákarnir hafi ekki áttað sig á aldri árásarmannanna sem allir báru lambhúshettur. Hún bætir við að lögreglan hafi komið á staðinn og rætt við strákana en hefur engar frekari fréttir fengið af rannsókn málsins.

„Það eru myndavélar hjá skólanum og möguleiki að það sjáist til þeirra þar,“ segir hún en hún bjóst við að ræða frekar við lögregluna eftir helgi. 

Sólrún sagði að öryggismyndavél væri einnig á Álftanesveginum sem er eina leiðin inn á nesið. Sólrúnu finnst ólíklegt að árásarmennirnir séu búsettir á Álftanesi.

„Mér finnst það ólíklegt en maður veit auðvitað aldrei.“

Lögregla gat ekki svarað fyrirspurnum fréttastofu um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×