Enski boltinn

Gerrard: „Við töpuðum á vafasömu víti“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Steven Gerrard þakkar Jürgen Klopp fyrir leikinn. Gerrard var ekki sáttur með vítaspyrnudóminn sem réði úrslitum.
Steven Gerrard þakkar Jürgen Klopp fyrir leikinn. Gerrard var ekki sáttur með vítaspyrnudóminn sem réði úrslitum. Clive Brunskill/Getty Images

Steven Gerrard, knattspyrnustjóri Aston Villa, snéri aftur á heimaslóðir þegar lið hans heimsótti Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í dag. Hann var nokkuð sáttur með spilamennsku sinna manna þrátt fyrir 1-0 tap, en segir að vítaspyrnan sem Salah skoraði úr hafi verið vafasöm.

„Mér fannst Liverpool heilt yfir betra liðið í dag,“ sagði Gerrard að leik loknum. „Þeirra stíll var betri en okkar, en við gerðum virkilega vel að halda aftur að þeim á löngum köflum í leiknum.“

„Þegar allt kemur til alls þá ræðst leikurinn á einu víti. Það voru tvö atvik þar sem hefði verið hægt að dæma víti í dag og Liverpool fékk sitt víti. Ef þú horfir á það aftur, þá braut Salah á Mings fyrst.“

Eins og áður segir var Gerrard þó nokkuð sáttur við frammistöðu sinna manna gegn virkilega vel mönnuðu liði Liverpool.

„Það er alltaf erfitt að sætta sig við það þegar maður tapar fótboltaleikjum. Við vissum að þetta yrði flókið verkefni því þú þarft að fylgja straumnum fyrstu 20-25 mínúturnar gegn liðum eins og Liverpool. Við enduðum leikinn betur, með meiri trú og nokkur fín tækifæri.“

Gerrard minntist á tvö atvik þar sem hægt hefði verið að dæma vítaspyrnu, en það seinna kom undir lok leiksins þegar Alisson kom í úthlaup og virtist mögulega brjóta á Danny Ings.

„Ef að handleggur kemur nálægt Alisson þá er það brot, þannig að af hverju fær Ings ekki brotið?“ velti Gerrard fyrir sér. „Þetta eru spurningar sem ég vill fá svör við, en ég get ekki svarað þeim núna.“

Knattspyrnustjórinn viðurkenndi þó að sennilega hefði hann átt að láta vaða aðeins fyrr til að freista þess að jafna leikinn, en að það sé erfitt gegn liði sem refsar þér jafn grimmilega og Liverpool.

„Þegar ég horfi til baka hefði ég kannski átt að setja meira púður í sóknina aðeins fyrr, en þú verður að vera varkár gegn liði eins og Liverpool svo að þeir skori ekki mark númer tvö, þrjú eða fjögur. Við töpuðum á vafasömu víti því að ef þú horfir almennilega á þetta þá var brotið fyrst á Tyrone [Mings]. Það sem er svekkjandi er að dómarinn fór ekki að skoða þetta.“

Að lokum hrósaði Gerrard sínu liði fyrir ákveðni og áræðni sína í leiknum og segir að hægt sé að byggja á frammistöðunni í næsta leik.

„Þegar við horfum á ákveðnina og áræðnina sem leikmennirnir sýndu þá gæti ég ekki verið ánægðari eða stoltari. Við eigum erfiðan leik gegn Norwich í miðri viku og þar er tækifæri fyrir okkur að koma til baka og ná í jákvæð úrslit,“ sagði Gerrard að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×