Innlent

„Fólk þarf að gera upp við sig hvor aðilinn sé lík­legri til að vinna kosningar“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Eyþór Arnalds og Hildur Björnsdóttir sækjast bæði eftir oddvitasæti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.
Eyþór Arnalds og Hildur Björnsdóttir sækjast bæði eftir oddvitasæti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Vísir/Vilhelm

Eyþór Arnalds og Hildur Björnsdóttir mættu í Silfur Egils á RÚV í morgun þar sem meðal annars var rætt um slaginn sem fram undan er þeirra á milli um oddvitasæti Sjálfstæðisflokksins í borginni.

Eyþór hefur verið oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík síðan árið 2018 en Hildur lýsti því yfir á dögunum að hún ætlaði að bjóða sig fram í oddvitasætið í komandi prófkjöri. Hildur hefur verið borgarfulltrúi síðan 2018 en hún var í öðru sæti á lista Sjálfstæðismanna í síðustu kosningum.

Kominn tími á það fyrir löngu síðan að við höfum áhrif í þessari borg

Hildur segir aðalmálið að Sjálfstæðisflokkurinn komist í meirihluta og geti tekið yfir borgina.Vísir/Vilhelm

„Ég held að það þurfi ekki alltaf að vera einhver stórkostlegur meiningamunur þó fólk sækist eftir sama sætinu. Við sjáum það líka á þingi að fólk sækist eftir forystusætum jafnvel þó það sé enginn sérstakur meiningamunur,“ sagði Hildur aðspurð um slaginn fram undan.

„Það sem fólk þarf þá að gera upp við sig er hvor aðilinn sé með meiri aðlaðandi framtíðarsýn, hvor aðilinn sé líklegri til að vinna kosningar og leiða okkur inn í meirihlutasamstarf. Ég býð mig fram því ég tel mig geta gert allt þetta.“

Hún segist ekki ætla að hallmæla Eyþóri.

„Við erum samherjar í Sjálfstæðisflokknum en við sækjumst eftir sama forystusæti. Heila málið er að vinna kosningar og komast í meirihluta. Í síðustu kosningum útilokuðu aðrir flokkar við okkur samstarf jafnvel þó við hefðum unnið kosningasigur. Það er staða sem við getum ekki fundið okkur aftur í.“

„Við þurfum að vera opin i alla enda og það sem mestu máli skiptir er að við getum myndað meirihluta með fólki sem á með okkur málefnalegan grundvöll og tekið yfir borgina. Það er markmið okkar Sjálfstæðismanna og okkur finnst kominn tími á það fyrir löngu síðan að við höfum áhrif í þessari borg.

„Framsókn vann merkilegan kosningasigur“

Eyþór Arnalds er oddviti Sjálfstæðismanna í borginni.Vísir/Vilhelm

Eyþór segist að það sé breiðari kór í borginni núna, miðað við fyrir fjórum árum síðan, sem er sammála um að það sé margt sem þarf að laga í borginni.

„Ég tel að ég hafi náð þar hljómgrunni meðal mjög margra aðila í þjóðfélaginu. Það þarf að laga bæði samgöngu- og skipulagsmálin og við heyrum það mjög víða. Nú er komið að því að breyta í vor.“

Eyþór sagði að Sjálfstæðismenn vantaði samstarfsaðila í borgarstjórn og daðraði við Framsóknarflokkinn sem fékk engan mann kjörinn í síðustu borgarstjórnarkosningum.

„Við fengum 31% síðast, sem er umtalsvert meira en þingkosningar gáfu okkur. Ég held að við getum fengið jafnvel meira en það mun ekki duga þannig að okkur vantar samstarfsaðila. Við erum opin fyrir samstarfi, við höfum aldrei útilokað aðra flokka. “

„Framsókn vann mjög merkilegan kosningasigur í þingkosningum og nú er bara að sjá hverjir verða í framboði fyrir hvern flokk og þá sjáum við hverjir geta dansað saman.“

Hildur tók undir orð Eyþórs um Framsóknarflokkinn.

„Framsóknarmenn hafa í gegnum söguna verið góðir samstarfsaðilar Sjálfstæðisflokksins. Ég veit auðvitað ekki hverjir bjóða sig fram í borginni eða hvaða áherslur þeir munu setja.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×