Enski boltinn

Ranieri vill að sínir menn verði eins og „ísmenn“ inn á vellinum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Claudio Ranieri sést hér vera að stýra liði Watford á móti Arsenal í ensku úrvalsdeildinni.
Claudio Ranieri sést hér vera að stýra liði Watford á móti Arsenal í ensku úrvalsdeildinni. Getty/Robin Jones

Claudio Ranieri hefur einfalda uppskrift fyrir sína leikmenn í Watford ætli liðið að bjarga sér frá falli úr deildinni næsta vor.

Watford liðið heimsækir Burnley í ensku úrvalsdeildinni annað kvöld. Knattspyrnustjóri Watford segir eina leiðin fyrir sína menn sé að missa ekki trúna á það að vinnusemi skili árangri inn á vellinum.

„Ég þekki bara eitt meðal og það er að leggja mikið á sig og trúa á sjálfan sig,“ sagði Claudio Ranieri.

Watford er nú tveimur stigum fyrir ofan fallsæti en í þriðja sæti sitja einmitt næstu mótherjar liðsins í Burnley.

„Þetta er mjög mikilvægur leikur. Ég hef mikla trú á mínum mönnum. Nálgunin er alltaf sú sama og við ætlum ekki að breyta okkar hugmyndafræði. Ég veit að þetta verður mikil barátta því Burnley er lið sem hefur aldrei neitt eftir fyrr en að leikurinn er flautaður af. Þetta verður góður og mikill baráttuleikur,“ sagði Ranieri.

„Ég segi alltaf við mína leikmenn að spila til sigurs en að það sé líka mikilvægt að þeir tapi ekki. Það er mín hugmyndafræði. Þú veist aldrei hvað er að fara að gerast í hverjum leik og þú verður því að berjast til sigurs en þú verður um leið að sýna þau klókindi að tapa ekki leikjum sem þú getur ekki unnið. Við þurfum að vera eins og ísmenn inn á vellinum,“ sagði Ranieri.

Í liði Burnley er náttúrulega eini raunverulegi Ísmaðurinn í ensku úrvalsdeildinni eða Jóhann Berg Guðmundsson. Það tengist þó örugglega lítið ummælum Ranieri fyrir leikinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×