Enski boltinn

Miðjumaður Villa vill vera eins og Gerrard

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jacob Ramsey fagnar marki sínu fyrir Aston Villa gegn Norwich City.
Jacob Ramsey fagnar marki sínu fyrir Aston Villa gegn Norwich City. getty/Joe Giddens

Jacob Ramsey, miðjumaður Aston Villa, vill verða eins og knattspyrnustjóri liðsins, Steven Gerrard.

Ramsey skoraði fyrra mark Villa í 0-2 sigri á Norwich City á Carrow Road í ensku úrvalsdeildinni í gær og það var í laglegri kantinum. Eftir mikinn sprett þrumaði hann boltanum framhjá Tim Krul í marki Norwich.

Ramsey, sem er tvítugur, vill feta í fótspor Gerrards sem tók við Villa í síðasta mánuði.

„Ég hef verið að horfa á myndbönd af stjóranum. Hann var einn af bestu marksæknu miðjumönnunum og þannig vil ég vera,“ sagði Ramsey.

Gerrard var að vonum ánægður með strákinn eftir leikinn í gær. „Sem miðjumaður geturðu bara klappað fyrir svona löguðu. Að ná svona skoti, þetta ætti að koma til greina sem mark mánaðarins,“ sagði Gerrard.

Villa hefur unnið fjóra af sex leikjum sínum eftir að Gerrard tók við liðinu af Dean Smith. Strákarnir hans Gerrards eru í 9. sæti ensku úrvalsdeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×