Innlent

Gylfi vinnur að mótun nýs ráðuneytis

Samúel Karl Ólason skrifar
Gylfi Arinbjörnsson.
Gylfi Arinbjörnsson.

Gylfi Arinbjörnsson, fyrrverandi forseti Alþýðusambands Íslands, hefur verið ráðinn sem tímabundinn ráðgjafi við mótun framtíðarskipulags nýs mennta- og barnamálaráðuneytis. Mun hann meðal annars vinna að yfirfærslu verkefna milli ráðuneyta.

Í tilkynningu á vef Stjórnarráðs Íslands segir að Gylfi hafi fjölþætta stjórnunarreynslu og hafi lokið meistaragráðu í hagfræði, stjórnun og opinberri stjórnsýslu frá Verslunarháskólanum í Kaupmannahöfn.

Hann var framkvæmdastjóri Eignarhaldsfélagsins Alþýðubankinn hf., framkvæmdastjóri ASÍ og síðar forseti ASÍ. Þá hefur Gylfi verið verkefnastjóri í átaksverkefnum stjórnvalda vegna áskorana á vinnumarkaði vegna faraldurs kórónuveirunnar.

Mennta- og barnamálaráðuneyti mun fara með málefni skóla og fræðslu, æskulýðs- og íþróttamál auk þess sem málefni barna og barnavernd flytjast til ráðuneytisins. Með sameiningu þessara málaflokka er lagt upp með að gefa hverju þessara málefna aukið vægi í stjórnkerfinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×