Enski boltinn

Fullkomni framherjinn fyrir Liverpool kannski bara Svíi en ekki Norðmaður

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alexander Isak spilar með sænska landsliðinu.
Alexander Isak spilar með sænska landsliðinu. EPA-EFE/ANDERS WIKLUND

Fyrrum leikmaður Liverpool ráðleggur Jürgen Klopp að kaupa sænska landsliðsframherjann Alexander Isak.

Stórliðin í ensku úrvalsdeildinni horfa mörg til norska framherjans Erling Braut Haaland en það gæti orðið mjög dýrt að ná í hann.

Jose Enrique, fyrrum varnarmaður Liverpool, sér annað frábæran kost fyrir Liverpool nú þegar framherjalínan er farin að eldast og félagið þarf að ná sér í framtíðarmann.

Enrique spilaði með Liverpool frá 2011 til 2016 en er frá Spáni. Þar hefur hann fylgst með framgöngu Svíans Alexanders Isak og hann er hrifinn.

Enrique er á því að svona stór og stæðilegur framherji gæti aukið möguleikana fyrir Klopp þegar kemur að sóknarleiðum Liverpool liðsins.

Alexander Isak er enn bara 22 ára gamall en hann kom til Real Sociedad frá Borussia Dortmund árið 2019. Isak er með samning til ársins 2026 og það er talið kosta 80 milljónir punda að kaupa upp samninginn.

Tölur Isak í vetur er ekkert frábærar en hann er með sex mörk og tvær stoðsendingar í 20 leikjum í öllum keppnum. Enrique er aftur á móti viss um að þetta sé fullkominn leikmaður fyrir Liverpool liðið.

„Fyrir mitt leyti þá er janúar mjög erfiður gluggi því stundum verða þetta oft örvæntingakaup. Það er samt einn leikmaður sem ég myndi reyna við og það er leikmaður sem getur spilað í öllum þremur framherjastöðunum,“ sagði Jose Enrique við Metro.

„Ég elska Isak hjá Real Sociedad og þeir áttu að kaupa hann í sumar áður en hann skrifaði undir nýjan samning við Sociedad,“ sagði Enrique.

„Nú gæti verið erfitt að kaupa hann en ef þeir koma með réttu upphæðina þá er þetta alvöru leikmaður. Hann er 22 ára, stór strákur, fljótur, sterkur, góður einn á einn, getur spilað á báðum vængjum og sem nía og þá verst hann líka vel,“ sagði Enrique.

„Það eru auðvitað margir möguleikar þarna út en fyrir mig þá ætti hann að vera fyrsti kostur,“ sagði Enrique og bætti við:

„Isak er fullkomin kostur enda dæmigerð Liverpool kaup. Ungur leikmaður sem þarf ekki að eyða í meira en hundrað milljónir,“ sagði Enrique.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×