Innlent

Hreinn hættur eftir aðeins tvær vikur með Jóni

Samúel Karl Ólason skrifar
Jón Gunnarson, innanríkisráðherra, og Hreinn Loftsson, fyrrverandi aðstoðarmaður hans til skamms tíma.
Jón Gunnarson, innanríkisráðherra, og Hreinn Loftsson, fyrrverandi aðstoðarmaður hans til skamms tíma. Vísir/Vilhelm

Hreinn Loftsson hefur ákveðið að hætta sem aðstoðarmaður Jóns Gunnarssonar, innanríkisráðherra. Í færslu á Facebook segir Hreinn ekki frá því af hverju hann tók þá ákvörðun að hætta en ráðning hans var tilkynnt þann fyrsta desember.

Hreinn var áður aðstoðarmaður Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, fyrrverandi dómsmálaráðherra. Í áðurnefndri færslu segir Hreinn málefni ráðuneytisins vera fjölmörg og spennandi og því hafi hann tekið boði Jóns um að aðstoða hann í embætti.

„Fljótlega komst ég þó að raun um að ég hafði verið of fljótur á mér og hef nú afráðið að láta af störfum,“ skrifar Hreinn. Hann hefur ekki svarað símtölum.

Brynjar Níelsson, fyrrverandi þingmaður, er einnig aðstoðarmaður Jóns.

Sjá einnig: Brynjar verður aðstoðarmaður innanríkisráðherra

Eins og segir í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins frá fyrsta desember lauk Hreinn laganámi frá Háskóla Íslands árið 1983, var við framhaldsnám í Oxford 1984-85 og öðlaðist réttindi til málflutnings fyrir héraðsdómstólum árið 1988 og Hæstarétti árið 1993. Hann á að baki fjölbreyttan feril í lögmennsku, atvinnulífi, stjórnsýslu og sem aðstoðarmaður ráðherra í viðskipta-, utanríkis- og samgönguráðuneytunum á árunum 1983-1988, forsætisráðuneytinu árin 1991-1992 og dómsmálaráðuneytinu árin 2019-2021.

Þá var hann sjálfstætt starfandi lögmaður á árunum 1988 til 1991 og frá 1992 til 2019. Hreinn hefur setið í stjórnum fjölmargra fyrirtækja og átt sæti í ýmsum stjórnum og nefndum, auk starfs á vettvangi stjórnmála.


Tengdar fréttir

Mikil uppstokkun meðal aðstoðarmanna ríkisstjórnarinnar

Það eru fleiri en ráðherrar sem hafa stólaskipti þessa dagana. Aðstoðarmenn ráðherra eru einnig margir að takast á við ný verkefni í nýjum ráðuneytum og þónokkrir hverfa á braut. Sumir sitja áfram í sama ráðuneyti, jafnvel þótt skipt hafi verið um ráðherra.

Hreinn ráðinn að­stoðar­maður Jóns

Hreinn Loftsson hefur verið ráðinn aðstoðarmaður Jóns Gunnarssonar innanríkisráðherra. Hann var aðstoðarmaður Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra í síðustu ríkisstjórn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×