Túfa, eins og Tufegdzic er jafnan kallaður, hefur verið aðstoðarþjálfari Vals frá því að Heimir Guðjónsson tók við liðinu fyrir tveimur árum. Hann hefur hins vegar starfað við þjálfun mun lengur á Íslandi, eftir að hafa áður verið leikmaður KA á árunum 2006-2012.
Túfa er frá Serbíu en er með íslenskan ríkisborgararétt. Hann hóf þjálfaraferilinn hjá KA sem hann stýrði upp úr 1. deild árið 2016 eftir langa bið KA-manna, en lét af störfum á Akureyri haustið 2018.
Hann stýrði svo Grindavík í eitt ár, sumarið 2019, en hætti þar eftir að liðið féll niður í 1. deild og flutti sig yfir á Hlíðarenda.
Túfa tekur við Öster af Denis Velic sem endaði með liðið í 5. sæti sænsku 1. deildarinnar í ár. Með liðinu leikur Alex Þór Hauksson, fyrrverandi miðjumaður Stjörnunnar.