„Þetta er með erfiðari árum sem ég hef átt en jafnframt það ánægjulegasta, því maður er að sjá árangur í hverjum mánuði, stundum viku frá viku. Þannig að þetta er búið að vera stórkostlegt,” segir Guðmundur Felix.
Hann var fyrstur manna til að fá grædda á sig handleggi, en það var gert 14. janúar á sjúkrahúsi í Frakklandi. Aðgerðin er sögð læknisfræðilegt afrek en hugurinn hefur ekki síður borið Guðmund Felix hálfa leið, enda hefur hann vakið verðskuldaða athygli fyrir einstakt hugarfar.
Lyfin segir hann hafa talsverð áhrif, en þau eru ónæmisbælandi sem þýðir að bólusetningar virka ekki á hann. Hann er því ekki með mótefni fyrir covid19, þrátt fyrir að hafa fengið fjórar sprautur við sjúkdómnum.
„Ef ég fengi covid þá er hægt að setja í mig mótefni. En ef ég fæ covid þá bara fæ ég covid og það verður bara að koma ljós,” segir hann, spurður hvort hann óttist það að smitast af veirunni. „Ég fer varlega, ég er ekki mikið innan um fjölmenni. Ég er knúsari en reyni samt að knúsa ekki alla sem ég hitti núna.”
Hins vegar sé erfitt að forðast knúsin, sérstaklega hér á landi. Hann nefnir alla vini sína og þann mikla stuðning sem hann hafi fengið frá Íslendingum. Það sé þó erfiðara að forðast knús frá börnum sínum og barnabörnum.
„Það er náttúrlega litli afastrákurinn minn sem ég hélt á í fyrsta skipti í gær, eins mánaða gamlan. Ég fékk að sitja með hann, gat haldið á honum, og á svo tvær aðrar afastelpur og einn eldri og dætur mínar náttúrlega. Það er ekkert hægt að sleppa því að knúsa þau öll,” segir Guðmundur Felix og brosir.
Nánar verður rætt við Guðmund Felix í kvöldfréttum Stöðvar 2 klukkan 18.30.