Jólasveinninn sem ber ábyrgð á þessari köldu kveðju til fanga er Skyrgámur sem kom til byggða í morgun.
Sagt er frá þessu skemmtilega atviki á Facebook-síðu Afstöðu. „Fátítt hefur verið á umliðnum árum að jólasveinarnir láti á sér kræla innan fangelsisveggja hér á landi og kom það því vistmönnum í fangelsinu á Hólmsheiði skemmtilega á óvart þegar þeir vöknuðu á dögunum og sáu að búið var að lauma sælgæti í skó þeirra,“ segir í færslunni.
Vistmenn Litla-Hrauns ætluðu þá að leika leikinn eftir í von um að fá sælgæti frá jólasveininum en urðu fyrir vonbrigðum þegar þeir komu að tómum skó í gær og enn meiri vonbrigðum með kartöfluna í morgun.
Þeir höfðu enda sýnt af sér fyrirmyndarhegðun í desember, að sögn Afstöðu.
„Fulltrúar frá Afstöðu fóru í dag á Litla-Hraun til að taka stöðuna, lægja öldur og ganga úr skugga um að þar hefðu allir hegðað sér vel. Það er mál manna að jólasveinninn muni ekki hrekkja vistmenn á Litla-Hrauni að nýju og mega þeir búast við sælgæti í skóinn á næstunni, rétt eins og vistmenn á Hólmsheiði,“ segir í færslunni.
„Annars var góð stemning á Hrauninu í dag og jólaundirbúningurinn í fullum gangi, það má því ekki gera ráð fyrir öðru en allir muni hegða sér þar vel, alla vega fram að jólum.“