Eyjólfur ætlar ekki að láta þar við sitja og ætlar Epal að tvöfalda upphæðina svo samtals 330 þúsund krónur fari til Ljóssins, sem er endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir fólk sem hefur fengið krabbamein og aðstandendur þess. Til stendur að gera slitna stólinn upp og gefa hann góðu fólki sem hefur lagt sitt að mörkum til samfélagsins.
Var um tíma dýrasta vara Góða hirðisins
Fréttastofa greindi frá því fyrir tæpum tveimur vikum að stóllinn væri kominn í sölu hjá Góða hirðinum og væri dýrasta vara sem verslunin hafi nokkurn tímann selt. Gersemin barst nytjavörumarkaðnum óvænt í gám frá Sorpu og hljóðaði verðmiðinn upp á 500 þúsund krónur.
Eftir að verðið vakti athygli og jafnvel hneykslan steig eigandi stólsins fram og bað um að ágóði sölunnar rynni allur til Ljóssins í ljósi þess að hann missti konuna sína úr krabbameini. Þá var ákveðið að setja stólinn á uppboð síðasta miðvikudag og lauk því klukkan fjögur í gær. Fyrsta boð var upp á 95 þúsund krónur.
Eyjólfur segir í samtali við Vísi að saga stólsins renni stoðum undir hina margkveðnu vísu Epalfólks að klassísk skandinavísk hönnun haldi verðmæti sínu.
Gott að gefa af sér
„Þegar við sáum að fyrri eigandi vildi að þessi upphæð færi til Ljóssins, þá fannst okkur bara rakið að við myndum bíða þangað til tvær mínútur í fjögur og sáum hvað þyrfti að bjóða svo Ljósið fengi sem mest,“ segir Eyjólfur.
Er einhver jólakærleikur þarna að verkum?
„Já, er það ekki bara. Ég kominn með húsgagnasmið sem ætlar að koma honum í gott stand og svo fáum við bólstrara til að bólstra hann. Svo eru vangaveltur um að finna honum heimili ef einhver er með hugmynd um verðugt heimili. Það þarf að vera einhver sem á hann skilið og þarf hjálp, við eigum eftir að þróa það betur,“ segir Eyjólfur og bætir við að fólki sé frjálst að mæta í næstu verslun Epal og bera upp nöfn á góðu fólki.
Eyjólfur segir að jólavertíðin og árið í heild hafi gengið ljómandi vel hjá Epal sem rekur nú fimm verslanir á Suðvesturhorninu, auk netverslunar.
„En það má ekki að gleyma því að þetta er 46 ára gamalt fyrirtæki og það hafa verið skin og skúrir. Ég hef á einhverjum árum mætt hérna og velt því fyrir mér hvað ég eigi að segja þeim sem eru að hringja og rukka mig pening en ég hef notið rosalegrar velvildar almennt. Nú gengur dúndrandi vel og þá er bara allt í lagi að gefa af sér.“