Mæling Hagstofunnar, sem var birt í morgun, er í takt við væntingar greinenda en spár um 12 mánaða verðbólgu voru á bilinu 4,9 til 5,2 prósent.
Ef húsnæðisliðurinn er tekinn út úr mælingunni nemur verðbólga síðustu 12 mánaða um 3,3 prósentum. Kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði, reiknuð húsaleiga, hækkaði um 0,6 prósent milli mánaða.
Flugfargjöld til útlanda hækkuðu um 10,8 prósent milli mánaða og verð á mat- og drykkjavörum hækkaði um 0,7 prósent.
Þegar Seðlabankinn hækkaði vexti um 50 punkta í nóvember vísaði bankinn til versnandi verðbólguhorfa sem endurspegluðu einkum þrálátar alþjóðlegar verðhækkanir, hækkun launakostnaðar og aukna spennu í þjóðarbúinu.
Bankinn spáði því að verðbólga myndi hækka í 4,7 prósent undir lok þessa árs og hún færi ekki undir 3 prósent fyrr en á síðasta ársfjórðungi 2022.
Í kjölfar vaxtahækkunarinnar sagði seðlabankastjóri í samtali við Innherja að ekki væri „endilega“ von á hröðum vaxtahækkunum á komandi misserum. Næsti vaxtaákvörðunarfundur bankans er í febrúar.
„Við ættum þá að hafa betri yfirsýn yfir stöðu mála en það gæti verið óþægilegt fyrir okkur ef við sjáum verðbólguna halda áfram að hækka á næstu þremur mánuðum á sama tíma og þessar launahækkanir eru að koma inn,“ útskýrði Seðlabankastjóri.
![](https://www.visir.is/i/19AD310B6D4646A3739DC098B2573E328751CBDBD2A04BD2500D4D2A4BBE0C43_713x0.jpg)
Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.