Styttan, sem stóð fyrir framan Háskólann í Hong Kong, er nokkuð grafísk og sýnir uppstöfluð lík til að minnast mótmælendanna sem var banað af kínverskum stjórnvöldum árið 1989. Styttan, til minningar um atvikið, var ein fárra sem enn var uppi í Hong Kong en mótmælin eru mjög viðkvæmt viðfangsefni á kínversku áhrifasvæði.
Fjarlæging styttunnar er sögð marka aukin áhrif kínverskra stjórnvalda í sjálfsstjórnarhéraðinu en áhrif stjórnvalda í Peking hafa farið vaxandi í Hong Kong undanfarin tvö ár.
Hong Kong var eitt sinn eitt fárra áhrifasvæða í Kína sem heimilaði að minnst væri á mótmælin á Torgi hins himneska friðar.
Talið er að hundruð ef ekki nokkur þúsund stúdentar, sem aðhylltust lýðræði, hafi verið skotnir til bana af kínverska hernum 4. júní 1989 en mótmæli á torginu höfðu þá staðið yfir síðan um miðjan apríl sama ár.
„Ákvörðunin um fjarlægingu styttunnar byggði á utanaðkomandi ráðgjöf og áhættumati. Þetta var talið það besta fyrir háskólann,“ sagði í yfirlýsingu frá háskólanum í gær.
Stjórnvöld í Hong Kong hafa undanfarið ráðist í aðgerðir gegn þeim sem mótmælt hafa auknum áhrifum stjórnvalda í Peking á sjálfsstjórnarsvæðinu. Háskólastúdentar hafa verið með háværari mótmælendum gegn auknum áhrifum Kína og margir þeirra hafa verið fangelsaðir eða flúið land.
„Háskólinn hefur haft verulegar áhyggjur af öryggi styttunnar,“ sagði í yfirlýsingunni.
Fyrstu vísbendingar um fjarlægingu styttunnar komu fram í gær þegar háskólastarfsmenn girtu styttuna af. Vinnumenn tóku hana svo niður í nótt og öryggisverðir stóðu vörð og meinuðu fréttamönnum aðgang.