Heldur færri mættu í sýnatöku í dag vegna Covid-19 í dag heldur en undanfarna daga en að sögn Óskars Reykdalssonar, forstjóra Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, eiga þau von á að taka um þrjú þúsund PCR-sýni og tvö þúsund hraðgreiningarpróf í dag.
„Hingað til hafa hraðgreiningarprófin yfirleitt verið aðeins fleiri en nú eru einkennasýnatökur og sóttkvíarsýnatökur heldur fleiri, og við upplifum það heldur að þær séu hlutfallslega fleiri. En þetta er ekki stór dagur, alls ekki,“ segir Óskar.
Metfjöldi greindist smitaður af kórónuveirunni í gær, eða 443 innanlands og 51 á landamærunum. Í einangrun eru nú 2.622 manns og eru 3.159 í sóttkví. Aðspurður um hvort fólk veigri sér við því að mæta í sýnatöku, til að mynda svo það lendi ekki í einangrun yfir jólin, segir Óskar það erfitt að segja.
„Það er svona eitthvað talað um það, það getur verið að fólk sé ekki alveg að fara í prófin eins fljótt og það gerði og það líða einhverjir dagar, sem er mjög óheppilegt vegna þess að um leið og það líða einhverjir dagar þar til sýnin eru tekin þá ertu búinn að vera að umgangast aðra og gætir verið búinn að dreifa veirunni,“ segir Óskar.
Kemur ekki á óvart ef margir mæta yfir hátíðirnar
Mikið álag hefur verið á sýnatökustöðum undanfarnar vikur en Óskar segir allt ganga vel hjá þeim um þessar mundir.
„Við erum mjög vel mönnuð og það er góður gangur á þessu þannig það er nánast engin bið. Þó að við séum að taka þessi fimm þúsund sýni í dag þá er fólk ekkert að bíða, það labbar nánast bara inn, það er svona upp undir korter svona í lengstu bið,“ segir Óskar.
Opið verður í sýnatökur á Suðurlandsbraut frá klukkan 8 til 12 á morgun, aðfangadag. Á jóladag verður ekki opið í hraðpróf né PCR-sýnatökur fyrir ferðalög en opið verður í PCR einkenna- og sóttkvíarsýnatöku frá klukkan 10 til 14.
„Það gæti komið dálítið margir á morgun, þetta er auðvitað stuttur tími þannig þetta getur orðið svolítið þétt, en við erum vel mönnuð,“ segir Óskar. „Alla dagana verður vel mannað og það ætti ekki að vera nein sérstök bið neins staðar.“
Hann hvetur alla sem eru með minnstu einkenni til að mæta í sýnatöku en mögulega munu margir fara í sýnatöku yfir hátíðirnar.
„Það er mikið um veiruna greinilega í samfélaginu þannig að þess vegna ættu að vera margar PCR sýnatökur, það kemur okkur ekkert á óvart þó þeir verði margir,“ segir Óskar.