Innlent

Sótt­varna­brot og of­beldi gegn lög­reglu á Þor­láks­messu

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Nóttin virðist hafa verið annasöm hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Nóttin virðist hafa verið annasöm hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fór í að minnsta kosti tvö útköll í gærkvöldi og í nótt þar sem grunur lék á um sóttvarnabrot. Þá voru nokkrir ökumenn stöðvaðir grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis eða vímuefna við umferðareftirlit lögreglu.

Afskipti voru höfð af veitingastað klukkan hálf tólf í miðborginni í gærkvöldi vegna brota á sóttvarnarlögum. Átján gestir voru á staðnum með drykk í hönd þegar lögreglu bar að garði en samkvæmt núgildandi sóttvarnareglum ber öllum gestum að yfirgefa veitingastaði klukkan 22.

Ekið var aftan á bifreið skömmu fyrir klukkan 18 í gær en ökumaðurinn reyndi að stinga af í kjölfarið. Sá sem ekið var aftan á slasaðist lítillega en honum tókst að elta ökumanninn og gera lögreglu viðvart. Lögregla komst fljótlega á sporið og tókst að hafa uppi á ökumanninum. Málið er í rannsókn.

Þá var maður í annarlegu ástandi handtekinn í Vesturbænum rétt eftir miðnætti í nótt en hann neitaði að fara að fyrirmælum lögreglu. Maðurinn er grunaður um sóttvarnabrot og í dagbók lögreglu segir að maðurinn liggi einnig undir grun fyrir ofbeldi gegn opinberum starfsmanni.

Annar var handtekinn fyrir sambærilegt athæfi í Vesturbænum rétt eftir miðnætti en sá neitaði að hlíta fyrirmælum lögreglu. Maðurinn var handtekinn og vistaður í fangageymslu.

Fjölmargir ökumenn voru stöðvaðir grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna. Lögregla var með umferðareftirlit á Skólavörðustíg í miðborg Reykjavíkur en þrjátíu og fimm bifreiðar voru stöðvaðar við eftirlitið. Tveimur ökumönnum var gert að hætta akstri, grunaðir um ölvun undir stýri.

Lögregla stöðvaði þar að auki nokkra ökumenn víðsvegar á höfuðborgarsvæðinu sem ýmist voru sviptir ökuréttindum, grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis eða vímuefna og í einhverjum tilfellum hvort tveggja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×