Eins og allir vita segir sagan okkur að verðbólga á Íslandi hefur jafnan verið hærri en í nágrannalöndum okkar. Svo ekki sé nú minnst á ástandið á sumum tímabilum síðustu aldar þegar verðbólgan var tugum prósenta hærri hér á landi en í helstu nágrannalöndum. Ástandið í þessum efnum var því fremur sérstakt á árinu 2021 þegar verðbólgan var hærri í Bandaríkjunum en hér á landi og litlu lægri í Þýskalandi, landi sem er þekkt fyrir flest annað en óstöðugt verðlag.
Áhrifin af Covid eru meginorsökin hérna, um það er ekki deilt. Heimsmarkaðsverð á hrávörum, bæði til matvælaframleiðslu og til almennrar iðnaðarframleiðslu hafa rokið upp í verði. Ofan í kaupið hefur flutningskostnður milli heimsálfa margfaldast og við lok árs er þessi kostnaður orðinn þre- til fjórfalt hærri en hann var í upphafi ársins. Sú staðreynd að nær 30% af allri framleiðslu í heiminum er í Kína hefur leitt til þess að þessi hækkun á flutningskostnaði hefur smitast út í vöruverð um allan heim.
En af hverju þessi hækkun á flutningskostnaði? Ástæðan er einkum sú að bæði markaðsaðilar og skipafélög sem sigla á leiðunum milli heimsálfa misreiknuðu áhrifin af Covid. Flestir áttu von á að eftirspurn eftir vörum og þjónustu myndi dragast saman, sem varð svo ekki raunin eins og berlega hefur komið í ljós. Skipafélög seldu flutningaskip í brotajárn, verslun hélst áfram öflug en fluttist að töluverðu leyti á netið. Það skapaði síðan ýmis tæknileg vandamál, þegar gífurlegt magn einstaklinga kaupir vörur á netinu og fær vörurnar sendar heim að dyrum.
Framleiðsluferlar hafa raskast, sem bein afleiðing af Covid, sem hefur haft þær afleiðingar að afhending vöru hefur seinkað og í verstu tilfellum leitt af sér vöruskort. Allt þetta hefur svo haft í för með sér hækkanir á vöru og þjónustu langt umfram það sem nokkur gat ímyndað sér. Það sem er nýtt fyrir okkur Íslendinga er að verðbólgan sem við höfum átt við að eiga er að verulegu leyti innflutt. Það vonda er að þar með er það utan áhrifasvæðis Seðlabankans að taka á þessari stöðu. Þau tæki sem bankinn hefur í vopnabúri sínu duga hér ekki.
Ekki er heldur hægt að hæla Samkeppniseftirlitinu í þessu sambandi sem hefur sett verulegar skorður við því hvernig hagsmunasamtök mega fjalla um þessi mál.
Það hefur verið áhugavert að fylgjast með umræðunni hér á landi, en það verður ekki komið tölu á hversu oft hefur verið fjallað um þessi mál á opinberum vettvangi. Við sem höfum því hlutverki að gegna að gæta hagsmuna fyrir verslunar- og þjónustufyrirtækin í landinu höfum eftir megni skýrt það út í fjölmiðlum hvað liggi að baki þessu sérstaka ástandi. Ekki er annað að sjá en að skilaboð okkar hafi náð til alls almennings. Öðru máli hefur gegnt um fulltrúa verkalýðshreyfingar og Neytandasamtaka sem hafa reynt að gera lítið úr málinu og haldið því fram að afkoma í verslun sé með þeim hætti að öll fyrirtæki í greininni geti auðveldlega tekið þennan viðbótarkostnað á sig. Slíkt er auðvitað fjarri öllu lagi, þar sem ekki er hægt að yfirfæra afkomu örfárra fyrirtæka yfir á öll fyrirtæki í greininni. Ekki er heldur hægt að hæla Samkeppniseftirlitinu í þessu sambandi sem hefur sett verulegar skorður við því hvernig hagsmunasamtök mega fjalla um þessi mál.
Við lok árs er ekkert sem bendir til annars en að það ástand sem hér er lýst muni vara vel fram á næsta ár. Um það eru allir greiningaraðilar sammála. Því er hætt við að glíman við innflutta verðbólgu verði einnig ein af stóru áskorunum ársins 2022.
Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu.