Í Reykjavík síðdegis í dag sagðist Ásmundur hafa verið verkstjóri í einni stærstu fiskvinnslu landsins á þeim árum sem Verbúðin á að gerast. Hann segir lífið í verbúðinni þar ekki hafa á nokkurn hátt líkst þeirri mynd sem máluð er upp í þættinum. Þó ýmislegt hafi auðvitað gengið á þar.
„Að draga þetta svona upp, samfarir og brjóstasýningar, ég veit ekki inn í hvaða heim þetta fólk er að tala með þessu. Hvort það trúi því að jafnvel á þessum árum sem er verið að horfa til, í upphafi kvótakerfisins, að þá hafi lífið verið svona,“ segir hann.
Velur heldur Nýtt líf
Þá segir hann að á þeim árum sem hann vann í fiskvinnslu hafi þar verið tekin upp kvikmyndin Nýtt líf. Hún sýni lífið í verðbúð á skemmtilegan og smekklegan hátt.
„En ef maður horfir á Nýtt líf og svo þetta sem er gert í gærkvöldi, þar sem fiskvinnslufólkið er gert að einhverjum álfum, skipstjórinn að aumingja sem notar efni upp í endaþarminn á sér og svona hluti. Veistu það, mér finnst þetta ekki ná orðið nokkurri átt,“
Þó segir hann boðskap þáttarins um kvótakerfið eiga rétt á sér. Hann vill þó að hann sé settur fram á annan hátt. „Ég bara stend upp til varnar landsbyggðinni vegna þess að hún á undir högg að sækja í öllu þessi menningarbrölti, sem er orðið gegnsýrt af einhverju berrössuðu fólki og ómennum,“ segir Ásmundur.
„Hvað finnst Me-too hreyfingunni?“
Þá veltir Ásmundur því fyrir sér hvernig þátturinn hafi fallið í kramið hjá þeim sem hann kallar „Me-too hreyfinguna“.
„Menn mega ekki hósta upp úr sér óviðurkvæmilegu orði, þá missa þeir vinnuna. En svo geta listamenn í nafni listarinnar nauðgað þessu öllu til og frá. Ég er bara orðinn gáttaður á þessari framkomu,“ segir hann.
Viðtal við Ásmund Friðriksson í Reykjavík síðdegis má heyra í heild sinni í spilaranum hér að neðan.