Rúmlega 2,1 milljón manna fóru um Keflavíkurflugvöll frá 1. janúar til 27. desember, samkvæmt bráðabirgðatölum Isavia fyrir desember, og fjölgar um tæplega 760 þúsund frá því í fyrra. Ferðamálastofa gerir ráð fyrir að um 700 þúsund ferðamenn hafi komið til landsins á þessu ári.
„Þetta ár er betra en það síðasta, við erum að sjá fram á að það séu um 700 þúsund ferðamenn á þessu ári og voru innan við 500 þúsund á því síðasta,“ segir Skarphéðinn Steinarsson, ferðamálastjóri.
„Það er hins vegar hvergi nærri þeim tölum sem við sáum fyrir Covid, árið 2019 voru hér tæplega tvær milljónir ferðamanna, þannig að það er dálítið í land en þetta er allt að koma,“ segir Skarphéðinn.

Væntingar hafa staðið til þess að þegar líða fari á vorið fari ferðaþjónustan að taka við sér og hafa vísbendingar bent til þess. Enn er þó mikil óvissa í faraldrinum og ómögulegt að segja hvað tekur við.
„Við áttum svo sannarlega ekki von á þessu sem hefur verið að gerast í kringum ómíkron, það er einhver samdráttur í kringum það, hins vegar hefur bókunarfyrirvari verið að styttast svo mikið að það er ekki víst að þetta hafi nein teljandi áhrif þegar við komum fram á vor og sumar,“ segir Skarphéðinn.
Fjöldi farþega hefur verið að aukast stöðugt það sem af er ári. Í sumar fjölgaði farþegum til að mynda um 50 prósent og í haust fjölgaði þeim um allt að 65 til 70 prósent.
„Þetta er þróun sem við gerum ráð fyrir að haldi áfram og almennt er talið í heiminum að ferðaþjónustan verði komin á par við það sem hún var fyrir Covid árið 2024,“ segir Skarphéðinn.