Árið 2021 var nokkuð viðburðaríkt á vettvangi orku- og veitumála. Það sem stendur uppúr er hvað fyrirtækin og starfsfólk þeirra hafa staðið sig vel í að halda þjóðhagslega mikilvægum innviðum rafmagns, hitaveitu, vatnsveitu og fráveitu gangandi við þær erfiðu aðstæður sem faraldurinn skapar.
Ný Orkustefna fyrir Ísland, sem unnin var í þverpólitísku samstarfi allra flokka, var lögð fram á Alþingi snemma á árinu. Samorka hefur lengi lagt áherslu á að slík stefna sé sett fram sem leiðarljós til framtíðar. Þar er sett fram metnaðarfull framtíðarsýn um sjálfbæra orkuframtíð og meðal annars markmiðið um að Ísland verði með öllu jarðefnaeldsneytislaust, sem ný ríkisstjórn hefur tímasett fyrir árið 2040. Það markmið er bæði mikil áskorun og um leið spennandi tækifæri fyrir land eins og Ísland, sem nú þegar er í fararbroddi þjóða í notkun endurnýjanlegrar orku.
Til að tryggja hér áfram orkuöryggi og græna framtíð þarf meðal annars að treysta orku- og veituinnviði um allt land, að tryggja að regluverkið sé skýrt og skilvirkt og að orkuþörf framtíðarinnar sé mætt með nægu framboði af grænni orku.
Þriðju orkuskiptin, sem nú lúta að samgöngum, eru sannarlega hafin og á árinu náðist sá áfangi að yfir 60% nýskráðra bíla eru raf- tvinn eða metanbílar. Samhliða því fjölgaði hraðhleðslustöðvum um allt land og þær urðu enn öflugri. Samorka hefur staðið fyrir umfangsmiklum greiningum um hvernig orkuskiptin geti orðið að veruleika og nú í árslok kynnti Samorka ásamt samstarfsaðilum nýja skýrslu um orkuskipti á hafi. Það er líka ánægjulegt að sjá hve mikinn metnað atvinnulífið hefur fyrir árangri í loftslagsmálum eins og nýútgefinn loftslagsvegvísir fyrir atvinnulífið ber merki um.
Framþróun varð einnig í veitumálum þegar styrkir frá ríkinu vegna fráveituframkvæmda sveitarfélaga voru settir á laggirnar á ný eftir margra ára hlé. Góð fráveita er mikilvægt heilbrigðis- og umhverfismál. Framkvæmdirnar geta verið íþyngjandi fyrir lítil og meðalstór sveitarfélög og þess vegna eru þessir styrkir mjög mikilvægir og Alþingi gerði vel í að koma þeim á aftur. Þá sætir það líka tíðindum að fyrsti áfangi nýrrar kynslóðar byggðalínu var tekinn í gagnið, sem er mikilvægur liður í að fækka flöskuhálsum í flutningskerfi rafmagns og styrkja það til að anna eftirspurn eftir raforku um allt land til framtíðar.
Vaxandi orkuþörf heimila, fyrirtækja og fyrir orkuskiptin til að ná árangri í loftslagsmálum er staðreynd.
Í nýafstöðnum kosningunum var skýr áhersla á loftslags- og orkumálin hjá frambjóðendum allra flokka og óhætt er að segja að þau hafi verið sett myndarlega á dagskrá. Samorka lagði sitt af mörkum í kosningabaráttuna með því að minna á þau stóru verkefni sem framundan eru svo Ísland geti staðið við alþjóðlegar skuldbindingar sínar í loftslagsmálum og sinnt framtíðarþörfum samfélagsins í orku- og veitumálum. Til að tryggja hér áfram orkuöryggi og græna framtíð þarf meðal annars að treysta orku- og veituinnviði um allt land, að tryggja að regluverkið sé skýrt og skilvirkt og að orkuþörf framtíðarinnar sé mætt með nægu framboði af grænni orku.
Nú í árslok vorum við minnt á að orkuöryggi er ekki sjálfgefið. Vaxandi orkuþörf heimila, fyrirtækja og fyrir orkuskiptin til að ná árangri í loftslagsmálum er staðreynd. Sem betur fer er samtalið þegar hafið um það hver orkuþörfin verður og hvernig hún verði leyst. Nú þegar við höldum af stað inn í nýtt ár bíður það nýrrar ríkisstjórnar að takast á við þessi mikilvægu og vandasömu úrlausnarefni. Lykillinn felst í að skapa orku- og veitufyrirtækjum umgjörð sem tryggir að þau geti á sem bestan hátt sinnt sínu hlutverki fyrir samfélagið nú og til framtíðar.
Höfundur er framkvæmdastjóri Samorku.