„Það er alveg hellings aðsókn, meiri en hefur verið, en engin röð því við erum búin að bæta fólki við og breyta. Við erum farin að taka sýni á tveimur stöðum í húsinu,“ segir Ingibjörg Salóme Steindórsdóttir, verkefnastjóri sýnatöku hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, aðspurð að því hvort röð hefði myndast í dag, líkt og greint var frá að hefði gerst dagana eftir aðfangadag. Hún segir klukkutíma langa bið í röðinni vera vandamál sem sé nú úr sögunni.
„Það er bara búið að vera þannig að það var röð þegar við opnuðum fyrst, en hún var búin hálftíma seinna. Svo myndaðist aftur röð á matartíma hjá starfsfólkinu, en það tók líka bara hálftíma að vinna hana niður. Síðan hefur ekki verið nein röð,“ segir Ingibjörg Salóme.
„Þetta er bara vandamál sem er búið að leysa.“
Þúsundir sýna á dag
Í dag er búið að taka um 4.200 PCR-próf af þeim 4.500 sem bókuð hafa verið í dag, auk nokkurra sem áttu bókaðan tíma á morgun en komu í sýnatöku í dag.
„Við erum bara komin langleiðina með þetta í dag. Við réðum inn fólk og vorum í smá vanda, sérstaklega á annan í jólum. En við erum búin að færa til og breyta og bæta við fólki og það er bara engin röð.“