Sölvi ætlar að birta sjö eða átta áður óbirta þætti sem hann var búinn að taka upp í vor áður en hann dró sig alfarið í hlé.
Óhætt er að segja að þjóðfélagið hafi nötrað þegar fram komu ásakanir á hendur Sölva um að hafa framið kynferðisbrot gegn tveimur konum. Þau mál eru enn til umfjöllunar hjá lögreglu en skömmu áður en ásakanirnar komu fram birtist Sölvi í sínum eigin þætti, ásamt lögmanni sínum Sögu Ýr Jónsdóttur, og ræddi ýmsar sögusagnir sem höfðu þá gengið um sig.
Sá þáttur birtist í upphafi maímánaðar á þessu ári. Seinna komu ásakanirnar fram og þá dró Sölvi sig alfarið í hlé. Og það sem meira er, þá tók hann alla þættina sem áður höfðu verið í birtingu, niður. Þeir hafa nú verið að birtast aftur hver af öðrum og eru nú allir aðgengilegir.
Hannes, Bogi, Hermann og Krummi meðal gesta
Sölvi hefur opnað sérstaka síðu helgaða hlaðvarpsgerð sinni en þar býðst fólki að gerast áskrifendur fyrir tæpar þúsund krónur á mánuði.
„Með því að gerast áskrifandi að Podcast með Sölva Tryggva færð þú aðgang að meira en 100 eldri þáttum, alls kyns aukaefni og 3-4 nýjum þáttum í hverjum mánuði. Um leið ert þú að hjálpa okkur að halda áfram þeirri vegferð að hafa áhrif á þjóðmálaumræðuna og geta boðið uppá innihaldsríkar og djúpar samræður með áhugaverðum einstaklingum í hverri viku,“ segir á síðunni. Þá er tilgreint að í hverjum mánuði verði dregnir út heppnir áskrifendur sem þá fá veglega vinninga. Verð aðeins 990 krónur í mánuði.
Samkvæmt heimildum Vísis munu væntanlegir gestir Sölva meðal annarra verða þeir Hannes Hólmsteinn Gissurarson stjórnmálafræðingur, tónlistarmaðurinn Krummi í Mínus, Hermann Hreiðarsson knattspyrnukappi og Bogi Ágústsson fréttamaður.