Í tilkynningu frá lögreglu segir að níu séu nú vistaðir í fangaklefum lögreglunnar.
Tilkynnt var um tvær hnífstungur í nótt. Sú fyrri var klukkan fjögur í nótt þar sem tilkynning barst um mann sem hafði reynt að stinga mann með tveimur hnífum í hverfi 102. „Tilkynnanda tókst að læsa sig inni í íbúð sinni og var gerandi handtekinn og vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.“
Skömmu fyrir klukkan fimm var svo tilkynnt um aðra hnífstungu, þá í hverfi 108. „Á vettvangi kom í ljós að brotaþolar voru tveir og var árásaraðili handtekinn á vettvangi. Brotaþolar fluttir á slysadeild til aðhlynningar og eru ekki taldir vera í lífshættu. Árásaraðili var að lokinni aðhlynningu á Bráðadeild vistaður í fangageymslu lögreglu.“
Var kominn hálfur inn í íbúðina
Lögregla var einnig kölluð út vegna innbrota, meðal annars í verslun á Laugaveginum þar sem rúða hafði verið brotin og farið inn og stolið þremur úlpum. Einnig var tilkynnt um innbrot í verslun í Mörkinni í hverfi 108.
Skömmu eftir miðnætti við tilkynnt um tilraun til innbrots í hverfi 108. Þar hafði húsráðandi komið að manninum þar sem hann var búinn að brjóta rúðu og var kominn hálfur inn í íbúðina. „Gerandi kom sér í burtu á tveimur jafnfljótum og er málið í rannsókn.“
Reyndi að sparka upp hurð
Upp úr klukkan eitt var tilkynnt um mann að sparka upp hurð hjá nágranna þess sem hringdi á lögreglu í hverfi 105. „Þar reyndist vera á ferðinni ofurölvi einstaklingur sem var að fara húsavillt. Hann færður á lögreglustöð til viðræðna og var síðan laus.“
Auk þess þurfti lögregla að sinna ýmsum verkefnum sem sneru að flugeldum, gróðureldum og fleiru. Segir meðal annars frá nokkrum flugeldaslysum og að flugeldar hafi farið inn um glugga í nokkrum húsum og sprungið.