Erlent

Hátt í 900 bílar brenndir á gaml­árs­dag

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Bílabrennur eru orðinn árviss áramótaviðburður í Frakklandi. Myndin var tekin í Frakklandi, en að vísu ekki á gamlárskvöld.
Bílabrennur eru orðinn árviss áramótaviðburður í Frakklandi. Myndin var tekin í Frakklandi, en að vísu ekki á gamlárskvöld. EPA-EFE/IAN LANGSDON

Kveikt hefur verið í á níunda hundrað bíla í Frakklandi í tilefni áramótanna. Um er að ræða eins konar hefð í úthverfum Frakklands, sem nær sextán ár aftur í tímann.

Á vef breska ríkisútvarpsins er haft eftir lögreglunni í Frakklandi að kveikt hafi verið í 874 bílum víðs vegar um landið á gamlársdag. Innanríkisráðuneyti landsins segir að mun fleiri bílar hafi orðið fyrir barðinu á brennuvörgum árið 2019. Þó hafi fleiri verið handteknir við bílabrennur í ár heldur en þá.

Á gamlársdag 2020 var lítið um bílabrennur, þar sem útgöngubann var í gildi vegna faraldurs kórónuveirunnar.

Bílabrennur eru svo gott sem orðnar árviss viðburður í frönskum úthverfum, og hafa verið frá því á gamlársdag árið 2005. Þá var kveikt í fjölda bíla í borgum víðs vegar um Frakkland vegna óeirða.

BBC greinir frá því að um 95.000 viðbragðsaðilar hafi verið ræstir út í Frakklandi vegna óeirða í tengslum við nýársfögnuði, þar af 32.000 slökkviliðsmenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×