Eigið fé fyrirtækja í ferðaþjónustu lækkaði úr 19 prósent í 12 prósent í árslok 2020. Án úrræða stjórnvalda hefði eigið fé getað lækkað um allt að 95 milljarða króna nú í árslok 2021, er mat Ferðamálastofu og KPMG. Umfram skuldsetning í formi vaxtaberandi skulda er áætluð um 55 milljarðar króna í greininni.
Líklegt þykir að endurfjármagna þurfi allt að 25 milljarða af skammtímaskuldum.
Þetta kemur fram í skýrslu sem Ferðamálastofa gerir með KPMG og kynnt er í dag þar sem er á grundvelli spálíkana áætlað um afkomu ársins 2021 og hver staðan er nú um áramótin. Þá er farið er yfir rekstur ferðaþjónustunnar á árinu 2020 og efnahag í árslok 2020.
Tókst að lækka kostnað hratt
Í greiningunni kemur fram að aðlögunarhæfni ferðaþjónustunnar hafi reynst til staðar í þeim áföllum sem dundu á ferðaþjónustunni vegna heimsfaraldursins. Erlendum ferðamönnum fækkaði verulega en þá reyndist innlendur markaður vera til staðar og nokkru meiri en reiknað hafði verið með.
Ferðaþjónustunni tókst að lækka kostnað hratt og aðlaga rekstur nýjum veruleika. Fá fyrirtæki hafa hætt starfsemi. Það sé hins vegar þannig að áföll á borð við það sem íslensk ferðaþjónusta varð fyrir komi einhvers staðar fram og líkt og rakið er í þessari skýrslu eru það skuldir sem hafa hækkað umtalsvert og eru víða orðnar of miklar til að reikna megi með að afkoma næstu ára geti staðið undir þeim.
Ferðamenn eyddu meiru en fjárfesting sat á hakanum
Fram kemur að á árinu 2021 hafi ferðamenn dvalið lengur og eytt meiru en áður en þar hjálpar meðal annars veik króna. Neyslumynstur ferðamanna hafi tekið að breytast og er kortavelta hlutfallslega hærri hjá bílaleigum og veitingaþjónustu á móti lækkun hjá verslun og farþegaflutningum.
Félög í greininni hafa fjárfest lítið síðustu tvö ár og má áætla að uppsöfnuð fjárfestingaþörf séu 20 til 25 milljarðar króna. Þau hafa skalað niður kostnað og aðlagað sig að lágmarksstarfssemi, meðal annars samið við leigusala um frystingu eða lækkun leigugreiðslna. Engu að síður glíma flest félög við verulegt tekjufall, háan launakostnað og neikvæða afkomu. Bílaleigur eru hins vegar undantekning þar á.
Fjöldi starfandi eykst en erfitt að fá starfsfólk
Árið 2021 eru stuðningsúrræði stjórnvalda metin á um 11 milljarða króna, en heildaráhrif stuðningsaðgerða utan skattfrestana og lánveitinga eru metin um 25 milljarðar árið 2020, þar af 9,5 milljarðar vegna hlutabótaleiðar.
Fjöldi starfandi innan greinarinnar hefur aukist um tæplega 10 þúsund eða um 70 prósent frá áramótum 2020 til loka þriðja ársfjórðungs 2021, en almennt reyndist erfitt að ráða starfsfólk yfir sumartímann. Stöðugildum í greininni fækkaði árið 2020 um 40 prósent.
Í skýrslunni kemur enn fremur fram að fá félög hafa fram að þessu hellst úr lestinni en einungis 24 félög sóttu um greiðsluskjól árið 2020 og 45 um gjaldþrotaskipti. Mörg félög muni hins vegar ekki geta haldið áfram rekstri nema til komi aukið hlutafé eða niðurfelling skulda á meðan önnur eru líkleg til að ráða við stöðuna. Sterk félög eru til staðar í greininni sem geta leitt viðspyrnuna. Fyrirsjáanlega mun talsverð samþjöppun eiga sér stað á næstunni.
Skuldir jukust mikið og hratt
Rekstrafkoma (EBIT) greinarinnar versnaði um 46 milljarða króna og var neikvæð um 26,5 milljarða árið 2020. Vaxtaberandi skuldir jukust um 23 milljarða á árinu og stóð í 209 milljörðum króna í árslok samkvæmt ársreikningum félaganna árið 2020, en þá eru 30 milljarða skuldir við tengd félög meðtalin.
Skuldamargfeldi (skuldir á móti EBIT) jókst mikið á milli ára, en margfeldi afkomu á móti skuldum er 7,7x en stóð í 6,2x árið 2019. Ferðamálastofa og KPMG töldu réttara að bera skuldsetningu saman við rekstur ársins 2019 frekar en 2020 þar sem það er ekki lýsandi fyrir getu félaganna til að standa undir skuldsetningu.
Þá hafa safnast upp umtalsverðar skammtímaskuldir, allt að 25 milljarðar króna umfram það sem eðlilegt er samkvæmt ársreikningum 2020. Erfitt getur reynst að vinna á þessum skuldum nema með frekari lántöku eða eiginfjárinnspýtingu.
Rúmlega þriðjungur of skuldsett
Í hverri grein eru fjárhagslega sterk félög sem hafa mikið vægi í útreikningunum. Sé horft framhjá þremur sterkustu félögum í hverri grein má sjá að eiginfjárstaða félaga í greininni lækkar úr 19 prósent í 8 prósent í árslok 2020.
Meirihluti félaga voru með jákvætt eigið fé og þriðjungur þeirra skilaði jákvæðri rekstrarafkomu (EBIT) á árinu.
Við árslok 2020 bjuggu um 25 prósent félaga í greininni við góða eða viðunandi fjárhagsstöðu en rúmlega þriðjungur of skuldsett eða með ósjálfbæran rekstur. Rekstur ársins 2021 hefur ekki bætt stöðu þessara félaga sem skulduðu samtals 104 milljarða. Í þessu samhengi má benda á að bankarnir hafa varúðarfært útlán til ferðaþjónustufyrirtækja sem nemur 17 milljörðum í lok þriðja ársfjórðungs 2021.
Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.