Afsökunarbeiðnina gaf hann út á Instagram hjá sér og skrifar meðal annars ,,Khloé, þú átt þetta ekki skilið. Þú átt ekki skilið þá ástarsorg og niðurlægingu sem ég hef valdið þér. Þú átt ekki skilið hvernig ég hef komið fram við þig í gegnum árin.“

Yfirlýsingin kemur í kjölfar þess að á mánudaginn kom í ljós að hann væri faðir drengs Maralee Nichols. Tristan hafði áður neitað því að hann væri faðir drengsins en faðernispróf hefur nú leitt hið sanna í ljós. Drengurinn kom í heiminn 1. desember 2021.

Samband Khloé og Tristans hefur verið stormasamt frá því þau tóku fyrst saman árið 2016, þremur mánuðum áður en Tristan átti von á sínu fyrsta barni með fyrrverandi kærustu sinni Jordan Craig. Parið tók á móti dóttur sinni True Thompson tveimur árum síðar. Tristan hefur í gegnum tíðina verið gripinn af fjölmiðlum með öðrum konum á meðan hann var í sambandi með Khloé, meðal annars nokkrum dögum áður en hún átti barnið þeirra.
Mesta athygli vakti líklega samneyti hans við Jordyn Woods sem var besta vinkona Kylie Jenner, litlu systur Khloé. Það framhjáhald leiddi til þess að parið hætti saman 2019 en þau hafa gert tilraunir til þess að láta fjölskyldulífið ganga síðan.