Í fréttum Stöðvar 2 var greint frá því að kvikugangurinn er núna talinn hafa færst sunnar. Er hann talinn ná frá nyrsta hluta Nátthaga og inn undir gígaröðina frá nýliðnu ári.
Fyrir átta dögum var kvikan talin á tveggja kílómetra dýpi, fyrir fimm dögum á 1,6 kílómetra dýpi og hún er enn að þrýsta sér upp.

„Hún er komin núna á um eins og hálfs kílómetra dýpi. Og þessi gangur, sem myndaðist í desember, hann er svona helmingurinn af því sem myndaðist í vor,“ segir jarðskjálftafræðingurinn Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar Veðurstofu Íslands.
Stærð kvikugangsins mælist núna 18 milljónir rúmmetra miðað við 35 milljónir rúmmetra fyrir gosið í mars.
„Og nú er í raun bara spurningin: Er nægilegur kraftur þarna fyrir þessa kviku að koma upp eða ekki?
Og ef við berum þetta saman til dæmis við Kröflu, þá voru um fimmtíu prósent af svona kvikuinnskotum sem enduðu í gosi. Þannig að: Eigum við ekki að segja að það séu ennþá fimmtíu prósent líkur á gosi,“ segir Kristín.

Síðustu daga hefur þó verulega dregið úr skjálftavirkni og þenslu.
„Já, það hefur gert það. Og það ætti ekkert að koma okkur á óvart þó að þessi litli gangur myndi bara frjósa þarna í skorpunni án þess að koma upp.
En við þurfum að vera undir það búin. Þannig að við höldum þessu opnu í einhverja daga.“
En svo rifjast upp aðdragandi gossins í mars.
„Þá dró úr öllum þessum merkjum. Það dró úr skjálftavirkni. Það dró úr þessum færslum. Og það varð allt einhvern veginn miklu hægara og maður hélt að nú myndi ekkert meira gerast.
Við vitum það líka að aðdragandinn getur verið mjög lúmskur og við þurfum að vera á tánum með það og fylgjast vel með,“ segir hópstjóri náttúruvárvöktunar Veðurstofu.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2:
Hér má rifja upp Kröfluelda: