Al Wakrah vann leikinn 2-1 en virðist hafa notað ólöglegan leikmann. Leikmaðurinn var vissulega með leikheimild og ekki í leikbanni en hann var nýlega búinn að greinast með kórónuveiruna.
Al Arabi greindi frá því á síðum sínum í gærkvöldi að félagið hafi nú sent formlega kvörtun til katarska knattspyrnusambandsins vegna viðkomandi leikmanns.
Leikmaðurinn fékk jákvæða niðurstöðu úr kórónuveiruprófi á öðrum degi jóla, 26. desember síðastliðinn. Lögin segja að hann eigi að vera í tíu daga einangrun eftir greiningu en það kemur fram í reglum heilbrigðisyfirvalda í Katar.
Það voru ekki liðnir tíu dagar frá smiti þegar leikurinn fór fram í gærdag að íslenskum tíma og leikmaðurinn því enn með veiruna samkvæmt öllum viðmiðum.
Ekki kemur fram í færslunni hjá Al Arabi hvort leikmaðurinn hafi farið í kórónuveirupróf á leikdegi aðeins að hann hafi tekið þátt í leiknum.
Aron Einar var í byrjunarliði Al Arabi og spilaði fyrstu 84 mínútur leiksins. Al Wakrah komst í 2-0 á fyrstu tíu mínútunum og staðan var enn 2-0 þegar Aron yfirgaf völlinn.
Eftir sigurinn er Al Wakrah aðeins einu stigi á eftir Al Arabi í fjórða og fimmta sæti Stjörnudeildarinnar.