Bæði eru þau Sloane og Jozy íþróttastjörnur í fremstu röð í heimalandi sínu. Sloane Stephens er tenniskona sem hefur unnið risamót á ferlinum og Jozy Altidore á að baki langan atvinnumannaferli í fótboltanum.
Stephens og Altidore hafa verið lengi saman en þau tilkynntu um trúlofun sína í apríl 2019.
Hin 28 ára gamla Sloane Stephens vann Opna bandaríska risamótið árið 2017 og varð í öðru sæti á Opna franska risamótinu árið eftir. Hún hefur einnig komist í undanúrslit á Opna ástralska mótinu og í átta manna úrslit á Wimbledon risamótinu.
Hinn 32 ára gamli Jozy Altidore hefur spilað með Toronto FC í MLS-deildinni síðan 2015 en lék á Spáni (Villarreal), á Englandi (Hull og Sunderland), í Tyrklandi (Bursaspor) og í Hollandi (AZ Alkmaar) á löngum ferli í Evrópu.
Altidore hefur alls skorað 42 mörk í 115 landsleikjum fyrir Bandaríkin og er þriðji markahæsti leikmaður landsliðsins frá upphafi á eftir þeim Clint Dempsey og Landon Donovan sem eru jafnir á toppnum með 57 mörk.