Fótbolti

Sif í tímamótastarf fyrir leikmenn á Íslandi

Sindri Sverrisson skrifar
ísland Kýpur undankeppni HM Laugardalsvöllur KSÍ
ísland Kýpur undankeppni HM Laugardalsvöllur KSÍ Foto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson

Sif Atladóttir, landsliðskona í fótbolta og einn nýjasti íbúi Árborgar, hefur verið ráðin sem fyrsti starfsmaður Leikmannasamtaka Íslands.

Sif var ráðin verkefnastjóri samtakanna og skrifaði undir samning þess efnis ásamt Arnari Sveini Geirssyni, forseta LSÍ.

Sif, sem er 36 ára, býr yfir mikilli reynslu úr íþróttahreyfingunni eftir langan knattspyrnuferil og er enn að en hún mun spila með Selfossi á næstu leiktíð auk þess sem hún stefnir á EM í Englandi í júlí.

Sif sneri heim úr atvinnumennsku í vetur eftir tólf ára dvöl erlendis, fyrst í Þýskalandi í eitt ár og svo í Kristianstad í Svíþjóð síðustu ellefu ár.

Í Svíþjóð tók Sif sæti í stjórn sænsku leikmannasamtakanna árið 2020 svo hún er ekki ókunnug því að berjast fyrir hagsmunum leikmanna.

Í tilkynningu LSÍ segir meðal annars: „Það er virkilega öflugt að fá Sif til liðs við okkur og mun reynsla hennar innan knattspyrnuhreyfingarinnar án efa efla starf okkar til muna.“

Sif, sem á að baki 84 A-landsleiki, hefur samhliða fótboltanum eignast tvö börn og lokið BS gráðu í lýðheilsufræðum við Háskólann í Kristianstad. Hún stundar nú mastersnám í íþróttavísindum við háskólann í Vaxjö.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×