Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar, vísar vangaveltum um aukaefni í bóluefnum barna á bug.
„Þetta er ekki hjartalyf, þetta er hjálparefni til að stýra sýrustigi. Þetta er algengt hjálparefni. Þetta er meðal annars í Moderna bóluefninu og gerir það að verkum að það er hægt að geyma lyfið lengur í kæli eftir blöndun og verður líka í fullorðnisbóluefninu frá Pfizer sem kemur núna fljótlega,“ segir Rúna í samtali við fréttastofu.
Rúna telur að aukaverkanir, sem börn munu koma til með að finna fyrir verði bara „þessar klassísku,“ sem bólusettir kannist almennt við: „Verkur á stungustað, kuldahrollur, þreyta, höfuðverkur og eitthvað í þá áttina.“
Hún telur að aukaverkanir séu ekki algengari hjá börnum en verði líklega sambærilegar þeim aukaverkunum sem ungmenni, tólf til sextán ára, fundu fyrir þegar sá hópur var bólusettur.
Bandaríkin eru náttúrulega stærst, þar hafa verið flestir bólusettir í þessum hópi, það eru um sjö milljónir. Þar hafa verið tilkynntar 3.000 aukaverkanir, 97 prósent af þeim eru almennar. Þeir hafa fengið átta tilkynningar um hjartabólgur sem er náttúrulega alvarleg aukaverkun svo það er kannski það sem einna helst stendur upp úr,“ segir Rúna.