Í sjónvarpsávarpi biðlaði hann til embættismanna að finna óbólusetta Filippseyinga og tryggja að þau brjóti ekki gegn útgöngubanni. Hinn mjög svo umdeildi forseti sagði að streitist fólk gegn útgöngubanninu megi lögreglan nú handtaka það.
Tilkynnt var í dag að 17.220 hefði greinst smitaðir af Covid-19. Í heildina hafa um 51.700 manns dáið vegna veirunnar, svo vitað sé.
„Ég ber ábyrgð á öryggi og velsæld Filippseyinga,“ hefur Reuters eftir Duterte. Hvatti hann þá sem væru ósammála til að höfða mál gegn honum.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hann hótar óbólusettum handtökum en í fyrra, þegar sambærilegum aðgerðum var beitt og nú sagði hann til að mynda að honum væri sama þó fólk sem afþakkaði bóluefni myndi deyja.
Sjá einnig: „Mín vegna megið þið deyja hvenær sem er“
Í stjórnartíð Dutertes hefur hann farið hart fram gegn fíkniefnum og neytendum þeirra í Filippseyjum. Talið er að lögregluþjónar og hermenn hafi drepið tugi þúsunda í þessu meinta stríði.
Ísland lagði árið 2019 fram tillögu um úttekt á stöðu mannréttindamála á Filippseyjum í mannréttindaráði SÞ. Sú úttekt leiddi í ljós hve margir hefðu mögulega dáið.