Innlent

Kjör­sókn yngri kjós­enda minnkaði mest en jókst hjá þeim elstu

Eiður Þór Árnason skrifar
Lengi hefur reynst auðveldara að fá eldri aldurshópa til að skila sér á kjörstað. 
Lengi hefur reynst auðveldara að fá eldri aldurshópa til að skila sér á kjörstað.  Vísir/Vilhelm

Kosningaþátttaka dróst saman í öllum aldurshópum í síðustu alþingiskosningum miðað við kosningarnar 2017, að undanskildum tveimur elstu aldurshópunum.

Mestur var samdrátturinn í yngsta aldurshópnum, 18 til 19 ára, eða 4,7% en einnig nokkur í hópnum 30 til 34 ára, eða 2,5%. Þetta er kemur fram í bráðabirgðatölum Hagstofunnar. Á sama tíma jókst kosningaþátttaka í aldurshópunum 75 til 79 ára um 0,2% og 80 ára og eldri um 0,6%.

Alls greiddu 203.898 landsmenn atkvæði í alþingiskosningunum þann 25. september eða 80,1% þeirra sem voru á kjörskrá. Kosningaþátttaka kvenna var 81,5% og karla 78,7%. Minnst var kosningaþátttaka í aldurshópnum 20 til 24 ára, 67,6% en mest hjá kjósendum 65 til 69 ára, eða 90,4%.

Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar. Kosningaþátttaka minnkaði lítillega í samanburði kosningarnar 2017 þegar hún við hún var 81,2%. Var þátttakan 82,1% á meðal kvenna og 80,3% á meðal karla.

1.213 manns fengu aðstoð við að kjósa í kosningunum, þar af 229 á kjörfundi og 984 utan kjörfundar, að sögn Hagstofunnar. Alls fengu 712 kjósendur aðstoð kjörstjóra eða kjörstjórnarmanns við að kjósa en 153 aðstoð fulltrúa að eigin vali. Af þessum hópi voru 38 sem kusu með aðstoð fulltrúa að eigin vali og staðfestu vottorði réttindagæslumanns.

Alls kusu 307 einstaklingar í bifreið á kjörstað en sérstaklega var boðið upp á úrræðið fyrir fólk sem var í einangrun eða sóttkví vegna Covid-19. 41 kaus á dvalarstað af sömu ástæðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×