Sport

Djokovic vann málið og má koma inn í Ástralíu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Novak Djokovic fær að keppa á opna ástralska meistaramótinu í tennis.
Novak Djokovic fær að keppa á opna ástralska meistaramótinu í tennis. EPA-EFE/Emilio Naranjo

Serbneski tennisleikarinn Novak Djokovic hefur fengið leyfi til að koma inn í Ástralíu eftir að hafa unnið áfrýjun sína um brottvísun úr landi vegna brota á reglu um bólusetningaskyldu.

Lögfræðingar héldu því fram að Djokovic hafði fengið undanþágu frá bólusetningu þar sem hann hafði smitast af kórónuveirunni og náð sér áður en hann fór af stað til Ástralíu.

Málið var tekið fyrir í morgun og dómari féllst á rök lögfræðinga Djokovic og veitti honum landvistarleyfi.

Dómstóllinn taldi að áströlsk yfirvöld höfðu ekki næg rök til að afturkalla vegabréfsáritun hans. Þetta er samt mögulega ekki búið enn því málinu gæti verið áfrýjað.

Málið hefur vakið mikla athygli út um allan heim og er orðið mjög pólitískt bæði innan Ástralíu en líka alþjóðlega því Serbar voru mjög ósáttir með meðferðina á þjóðhetju sinni.

Djokovic þurfti að bíða í níu klukkutíma á flugvellinum við komuna til Ástralíu en fékk ekki inngöngu og var í staðinn sendur á farsóttarhótel þar sem hann átti að dúsa þar til að hann yfirgæfi landið.

Djokovic er mættur til Ástralíu til að verja titil sinn á opna ástralska risamótinu í tennis en hann hefur unnið mótið þrjú ár í röð.

Næsti sigur hans á risamóti myndi einnig þýða að enginn annar í sögunni væri búinn að vinna fleiri risamót á ferlinum. Djokovic hefur unnið tuttugu risamót eins og þeir Roger Federer og Rafael Nadal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×